Toppliðið í vandræðum með botnliðið

Karina Konstantinova skoraði 10 stig fyrir Keflavík í kvöld.
Karina Konstantinova skoraði 10 stig fyrir Keflavík í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birna Valgerður Benónýsdóttir átti stórleik fyrir topplið Keflavíkur þegar liðið vann nauman sigur gegn botnliði ÍR í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Skógarseli í Breiðholti í 12. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 75:63-sigri Keflavíkur en Birna Valgerður skoraði 21 stig í leiknum, ásamt því að taka sjö fráköst.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Keflavík leiddi með sjö stigum í hálfleik, 41:34. Keflavík jók forskot sitt í þrettán stig í þriðja leikhluta, 60:47, og ÍR-ingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

Agnes María Svansdóttir skoraði 15 stig, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu hjá Keflavík en Greeta Uprus var stigahæst hjá ÍR með 19 stig og átta fráköst.

Keflavík er með 22 stig í efsta sæti deildarinnar en ÍR er sem fyrr á botninum án stiga.

Aliyah Collier skoraði 22 stig í kvöld.
Aliyah Collier skoraði 22 stig í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þá átti Aliyah Collier stórleik fyrir Njarðvík þegar liðið vann öruggan sigur gegn Breiðabliki í Smáranum í Kópavogi.

Collier skoraði 22 stig, tók 10 fráköst og gaf sex stoðsendingar en leiknum lauk 100:76-sigri Njarðvíkinga.

Leikurinn var aldrei spennnaid en Njarðvík leiddi með 18 stigum í hálfleik, 56:38, og lét forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik.

Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 17 stig og tók 12 fráköst fyrir Njarðvík gegn sínum fyrrverandi liðsfélögum en Sanja Orozovic var stigahæst hjá Breiðabliki með 25 stig og níu fráköst.

Njarðvík er með 16 stig í fjórða sætinu en Breiðablik er með 4 stig í sjöunda sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert