Ægir, Jón og Sara fögnuðu sigrum

Ægir Þór Steinarsson er drjúgur fyrir lið Alicante á Spáni.
Ægir Þór Steinarsson er drjúgur fyrir lið Alicante á Spáni. mbl.is/Óttar Geirsson

Landsliðsfólkið Ægir Þór Steinarsson, Jón Axel Guðmundsson og Sara Rún Hinriksdóttir fagnaði allt sigrum með sínum félagsliðum í körfuboltanum á Spáni og Ítalíu í kvöld.

Ægir átti flestar stoðsendingar allra á vellinum, sex talsins, og skoraði auk þess sjö stig og tók þrjú fráköst á 26 mínútum þegar lið hans, Alicante, vann Castello, 74:70, í spænsku B-deildinni. Alicante er í sjötta sæti deildarinnar og hefur unnið 11 af 17 leikjum sínum á tímabilinu. 

Í sömu deild mátti Þórir Guðmundur Þorbjarnarson sætta sig við tap á heimavelli með Oviedo gegn Estela, 62:69. Þórir lék í 20 mínútur, skoraði sex stig og tók eitt frákast. Oviedo er næstneðst af 18 liðum í deildinni með fjóra sigra í 17 leikjum í vetur.

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 11 stig fyrir Faenza.
Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 11 stig fyrir Faenza. mbl.is/Óttar Geirsson

Sara Rún skoraði ellefu stig og átti eina stoðsendingu fyrir Faenza sem vann Valdarno örugglega í ítölsku A-deildinni, 70:54. Faenza er í 10. sæti af 14 liðum með 12 stig úr 17 leikjum.

Jón Axel Guðmundsson er í toppbaráttu með Pesaro á Ítalíu.
Jón Axel Guðmundsson er í toppbaráttu með Pesaro á Ítalíu. mbl.is/Óttar Geirsson

Jón Axel átti fjórar stoðsendingar, tók þrjú fráköst og skoraði tvö stig á 20 mínútum með Pesaro sem vann Verona, 76:73, í ítölsku A-deildinni. Pesaro er komið í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig úr 16 leikjum, fjórum stigum á eftir toppliði Olimpia Mílanó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert