Herro leiddi Miami til sigurs

Tyler Herro skoraði 26 stig í kvöld.
Tyler Herro skoraði 26 stig í kvöld. AFP/Carmen Mandato

Tyler Herro fór fyrir Miami Heat þegar liðið vann góðan sigur á New Orleans Pelicans, 100:96, í hörkuleik í NBA-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

Herro skoraði 26 stig og tók átta fráköst að auki fyrir Miami. Jimmy Butler og Bam Adebayo bættu við 18 stigum hvor og Kyle Lowry var með 17.

Adebayo tók auk þess níu fráköst.

New Orleans saknaði sinnar stærstu stjörnu, Zion Williamson, sárt enda skar sig enginn leikmaður sérstaklega úr í fjarveru hans. Williamson glímir við meiðsli.

Trey Murphy var stigahæstur hjá New Orleans með 17 stig.

Gengi liðanna hefur verið afar keimlíkt á tímabilinu þar sem Miami er í sjötta sæti í austurdeildinni með 26 sigra í 48 leikjum á meðan New Orleans er í fjórða sæti vesturdeildarinnar með 26 sigra í 47 leikjum.

mbl.is