Keflavík vann Suðurnesjaslaginn

Eric Ayala var Grindvíkingum erfiður í kvöld.
Eric Ayala var Grindvíkingum erfiður í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflavík gerði góða ferð til Grindavíkur og vann 11 stiga sigur á Grindvíkingum, 104:93, í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld. 

Keflvíkingar byrjuðu leikinn á tveimur þriggja stiga skotum, 6:0. Grindvíkingar voru þó fljótir að svara og jöfnuðu metin í 8:8 þegar fjórar mínútur voru liðnar. Liðin skiptu svo á milli sín stigunum en það voru Keflvíkingar sem enduðu leikhlutann betur, þremur stigum yfir 20:17. 

Liðin héldu áfram að skipta með sér stigunum nánast allan annan leikhluta en undir lok hans náði Grindavík örlítilli forystu. Leikhlutanum lauk 49:45, Grindvíkingum í vil. 

Þriðji leikhluti var framan af álíkur öðrum. Þá skiptu liðin með sér stigunum og þegar að 90 sekúndur voru eftir komust Grindvíkingar sex stigum yfir, 75:69. Keflavík svaraði því og setti átta næstu stig og lauk leikhlutanum tveimur stigum yfir, 77:75. 

Fjórði leikhluti var svo alfarið í eigu Keflvíkinga. Þeir völtuðu yfir Grindavíkurliðið trekk í trekk og léku listilega vel. Samtals vann Keflavík leikhlutann 27:18 og leikinn 104:93.

Keflvíkingurinn Eric Ayala var stigahæstur allra í leiknum með 27 stig, en ásamt því tók hann tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Halldór Garðar Hermannsson átti góða innkomu í liði Keflavíkur, setti 17 stig og tók sex fráköst. 

Ólafur Ólafsson var atkvæðamestur í liði Grindavíkur með 21 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar. Gkay Gaios Skordilis setti þá 24 stig.

Keflvíkingar jafna Val að stigum á toppi deildarinnar en eru í fyrsta sæti á innbyrðisviðureignum. Valsmenn eiga þó leik til góða. Grindavík er í sjöunda sæti deildarinnar með 14 stig, jafnmörg og Breiðablik og Tindastóll. 

Grindavík - Keflavík 93:104

 HS Orku-höllin, Subway deild karla, 26. janúar 2023.

Gangur leiksins: 4:6, 12:10, 15:17, 17:20, 26:28, 33:35, 40:39, 49:45, 54:49, 64:58, 69:67, 75:74, 79:82, 83:91, 87:98, 93:104.

Grindavík: Gkay Gaios Skordilis 24, Ólafur Ólafsson 21/8 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Bragi Guðmundsson 16/7 fráköst, Damier Erik Pitts 15/8 stoðsendingar, Magnús Engill Valgeirsson 11, Hilmir Kristjánsson 3, Kristófer Breki Gylfason 2/5 fráköst, Valdas Vasylius 1/4 fráköst.

Fráköst: 17 í vörn, 14 í sókn.

Keflavík: Eric Ayala 27, Halldór Garðar Hermannsson 17/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 16/4 fráköst/9 stoðsendingar, Igor Maric 15/6 fráköst, Dominykas Milka 13/10 fráköst, David Okeke 8/9 fráköst, Valur Orri Valsson 6/4 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Pétursson 2.

Fráköst: 31 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Gunnlaugur Briem, Jón Þór Eyþórsson, Stefán Kristinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert