Þjálfaralausir Stjörnumenn unnu ÍR

ÍR-ingurinn Collin Anthony Pryor og Stjörnumaðurinn Viktor Jónas Lúðvíksson berjast …
ÍR-ingurinn Collin Anthony Pryor og Stjörnumaðurinn Viktor Jónas Lúðvíksson berjast um boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann 18 stiga heimasigur á ÍR, 94:76, í Subway-deild karla í körfuknattleik í Garðabæ í kvöld. 

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki á hliðarlínunni í kvöld en hann var úr­sk­urðaður í eins leiks bann af aga- og úr­sk­urðar­nefnd KKÍ vegna hegðunar sinnar er Stjarnan mætti Keflavík í deildinni 20. janúar síðastliðinn.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur og settu fyrstu sjö stig leiksins. Smám saman eftir það komust gestirnir inn í leikinn og þegar fyrsta leikhluta var lokið voru ÍR-ingar komnir þremur stigum yfir, 25:22. 

Jafnræði var á milli liðanna í öðrum leikhluta en þegar um sjö mínútur voru liðnar af honum náðu heimamenn fjögurra stiga forskoti, 42:38. ÍR-ingar svöruðu því í næstu sóknum og heimamenn fóru aðeins með eins stigs forystu til búningsklefa, 49:48. 

Stjarnan byrjaði síðari hálfleikinn mun betur og komst snemma átta stigum yfir, 58:50. ÍR-ingar svöruðu því og jöfnuðu metin á nýjan leik í 60:60 þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Eftir það settu Stjörnumenn í nýjan gír og enduðu leikhlutann níu stigum yfir, 73:64. 

ÍR-ingar voru klaufar í fjórða leikhluta og fóru illa með færin sín til að saxa á forskot Stjörnunnar sem jók aðeins forskot sitt. Stjörnumenn enduðu á því að vinna leikhlutann 21:12 og var um að ræða samtals 94:76-sigur. 

Svíinn Niels Gutenius átti stórleik í liði Stjörnunnar með 26 stig, 15 fráköst og tvær stoðsendingar. Adama Kasper Darbo lék einnig afar vel og setti 19 stig, tók fimm fráköst og gaf 11 stoðsendingar fyrir heimamenn. Varamaðurinn Friðrik Anton Jónsson átti góða innkomu í liði Stjörnunnar og setti 16 stig ásamt því að taka tíu fráköst. 

Varamaðurinn Hákon Örn Hjálmarsson var atkvæðamestur í liði gestanna með 22 stig, tvö fráköst og þrjár stoðsendingar. 

Stjarnan er enn í áttunda sæti deildarinnar, nú með 12 stig. ÍR er í tíunda sæti með sex. 

Gangur leiksins: 5:0, 13:9, 16:17, 22:25, 25:27, 30:35, 44:42, 49:48, 52:50, 60:55, 60:60, 73:64, 76:66, 77:68, 84:73, 94:76.

Stjarnan: Niels Gustav William Gutenius 26/15 fráköst, Adama Kasper Darbo 19/5 fráköst/11 stoðsendingar, Friðrik Anton Jónsson 16/10 fráköst, Dagur Kár Jónsson 14/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 10/10 fráköst/7 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 6, Kristján Fannar Ingólfsson 3.

Fráköst: 31 í vörn, 15 í sókn.

ÍR: Hákon Örn Hjálmarsson 22, Luciano Nicolas Massarelli 17, Taylor Maurice Johns 16/10 fráköst, Ragnar Örn Bragason 8/4 fráköst, Sigvaldi Eggertsson 7/6 fráköst, Martin Paasoja 4, Collin Anthony Pryor 2/8 fráköst.

Fráköst: 21 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Jóhannes Páll Friðriksson, Jakob Árni Ísleifsson, Birgir Örn Hjörvarsson.

Áhorfendur: 147.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert