Þjálfari Stjörnunnar í bann

Arnar Guðjónsson er kominn í eins leiks bann.
Arnar Guðjónsson er kominn í eins leiks bann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ.

Þjálfaranum var vikið af hliðarlínunni fyrir hegðun sína er Stjarnan og Keflavík mættust í Subway-deildinni 20. janúar síðastliðinn.

Keflavík vann sannfærandi 115:87-sigur og virtist mótlætið fara afar illa í leikmenn og þjálfara Stjörnunnar.

Auk þess að Arnari var vikið í sturtu var þeim Hlyni Bæringssyni og Degi Kár Jónssyni einnig vikið út úr húsi fyrir sína framkomu.

Mál Hlyns var einnig tekið fyrir á fundi aga- og úrskurðarnefndar og slapp hann með áminningu. Enn á eftir að taka fyrir mál Dags.

Arnar verður því ekki á hliðarlínunni er Stjarnan og ÍR mætast í kvöld í mikilvægum leik. Stjarnan er í áttunda sæti með 10 stig og ÍR í tíunda sæti með sex. Blandast Stjarnan í fallbaráttuna með tapi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert