Blikar keyrðu yfir Val í síðari hálfleik

Everage Richardson var stigahæstur í leiknum með 23 stig fyrir …
Everage Richardson var stigahæstur í leiknum með 23 stig fyrir Breiðablik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik vann gífurlega sterkan sigur á ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum Vals, 89:78, þegar liðin áttust við í Subway-deild karla í körfuknattleik í Kópavoginum í kvöld.

Gestirnir af Hlíðarenda voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með átta stigum að honum loknum, 49:41.

Í síðari hálfleik sneru Blikar hins vegar taflinu alfarið við, keyrðu yfir gestina og unnu að lokum öruggan ellefu stiga sigur.

Stigahæstur hjá Breiðabliki var Everage Richardson með 23 stig og skammt á eftir honum var Jeremy Smith með 20 stig og tók hann auk þess sjö fráköst.

Stigahæstur hjá Val var Pablo Bertone með 22 stig. Kári Jónsson bætti við 20 stigum og gaf hann auk þess sjö stoðsendingar.

Breiðablik fór með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar þar sem liðið er nú með 16 stig eftir 14 leiki.

Valur er áfram í öðru sæti með 22 stig, jafnmörg og topplið Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert