Dómararnir viðurkenndu mistök

LeBron James skildi hvorki upp né niður í ákvörðun dómaranna.
LeBron James skildi hvorki upp né niður í ákvörðun dómaranna. AFP/Maddie Meyer

Dómarar í leik LA Lakers gegn Boston Celtic í NBA-deildinni í körfuknattleik í fyrrinótt hafa viðurkennt afdrifarík mistök í leiknum þar sem ekki var dæmd villa á Jayson Tatum þegar hann sló í hönd LeBron James.

James keyrði í átt að körfunni undir blálok leiksins þegar Tatum sló í hönd hans, sem varð þess valdandi að James náði ekki að koma boltanum í átt að körfunni. Átti hann ekki orð yfir því að hafa ekki fengið dæmda villu.

Eftir leikinn sökuðu leikmenn Lakers dómara leiksins um svindl.

„Það var snerting. Við misstum af brotinu,“ viðurkenndi Eric Lewis, yfirdómari leiksins.

Staðan var jöfn, 105:105, þegar atvikið átti sér stað og hefðu dómarar leiksins dæmt villu hefði James fengið tvö vítaskot til þess að tryggja sigurinn og hefði verið svo gott sem enginn tími fyrir Boston að halda í eina lokasókn í kjölfarið.

Villa var hins vegar ekki dæmd, leiktíminn rann út og leikurinn fór í framlengingu þar sem Boston reyndist hlutskarpara, 125:121.

„Dómarar gera mistök eins og allir aðrir. Við gerðum ein slík undir lok leiks í gærkvöldi og það er okkur afskaplega þungbært.

Þetta atvik mun leggjast þungt á okkur og valda svefnlausum nóttum á meðan við leitumst eftir því að vera eins góðir dómarar og okkur er unnt,“ sagði í yfirlýsingu frá dómarasamtökum NBA-deildarinnar.

mbl.is