Lakers tapaði en LeBron 36 stigum frá metinu

LeBron James í þann mund að troða í nótt.
LeBron James í þann mund að troða í nótt. AFP/Jonathan Bachman

LA Lakers mátti sætta sig við naumt tap, 126:131, fyrir New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. LeBron James átti enn einn stórleikinn og nálgast met Kareems Abdul-Jabbars yfir flest stig skoruð óðfluga.

LeBron skoraði 27 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar og er nú aðeins 36 stigum frá því að slá met Abdul-Jabbars yfir flest skoruð stig í sögu NBA-deildarinnar.

Stigahæstur í liði Lakers var Anthony Davis með 34 stig og 14 fráköst.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Brandon Ingram með 35 stig fyrir New Orleans.

New Orleans hafði tapað tíu leikjum í röð fyrir leikinn í nótt og var sigurinn því afar kærkominn.

Grikkinn magnaði Giannis Antotokounmpo var með þrefalda tvennu fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið hafði betur gegn Miami Heat, 123:115.

Hann skoraði 35 stig, tók 15 fráköst og gaf 11 stoðsendingar og var stigahæstur í leiknum.

Jimmy Butler var stigahæstur í liði Miami með 32 stig og átta fráköst.

Öll úrslit næturinnar:

New Orleans – LA Lakers 131:126

Milwaukee – Miami 123:115

Brooklyn – Washington 125:123

Detroit – Phoenix 100:116

New York -  LA Clippers 128:134 (frl.)

Chicago – Portland 129:121

Oklahoma – Houston 153:121

Golden State – Dallas 119:113

Denver – Atlanta 128:108

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert