Toppliðið aftur á sigurbraut

Derrick White hjá Boston sækir að Killian Hayes, leikmanni Detroit, …
Derrick White hjá Boston sækir að Killian Hayes, leikmanni Detroit, í nótt. AFP/Gregory Shamus

Boston Celtics, topplið Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta vestanhafs, hafði betur gegn Detroit Pistons, 111:99, á útivelli í nótt. Er liðið því komið aftur á sigurbraut, eftir tap gegn Phoenix Suns í síðasta leik.

Jayson Tatum skoraði 34 stig og tók 11 fráköst sömuleiðis fyrir Boston. Bojan Bogdanovic gerði 21 stig fyrir Detroit.

Milwaukee Bucks fylgir Boston eins og skugginn og liðið vann 127:108-útisigur á Portland Trail Blazers. Einu óvæntu tíðindin voru þau að Giannis Antetokounmpo var ekki stigahæstur hjá Milwaukee.

Khris Middleton og Trendon Watford eigast við í leik Portland …
Khris Middleton og Trendon Watford eigast við í leik Portland Trail Blazers og Milwaukee Bucks. AFP/Alika Jenner

Brook Lopez tók heiðurinn að þessu sinni en miðherjinn skoraði 27 stig og tók níu fráköst. Giannis skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Boston er með 38 sigra og 16 töp á toppnum og Milwaukee í öðru sæti með 37 sigra og 17 töp. Philadelphia kemur þar á eftir með 34 sigra, 18 töp og tvo leiki til góða.

Í Vesturdeildinni átti Klay Thompson stórleik fyrir Golden State Warriors í 141:114-heimasigri á Oklahoma City Thunder. Klay Thompson skoraði 42 stig fyrir Golden State.

Úrslit næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta:
Detroit Pistons – Boston Celtics 99:111
Washington Wizards – Cleveland Cavaliers 91:114
Brooklyn Nets – Los Angeles Clippers 116:124
Chicago Bulls – San Antonio Spurs 128:104
Houston Rockets – Sacramento Kings 120:140
Utah Jazz – Dallas Mavericks 111:124
Golden State Warriors – Oklahoma City Thunder 141:114
Portland Trail Blazers – Milwaukee Bucks 108:127

mbl.is