Elvar getur komist í átta liða úrslit

Elvar Már Friðriksson leikur með Rytas frá Litháen.
Elvar Már Friðriksson leikur með Rytas frá Litháen. Ljósmynd/FIBA

Elvar Már Friðriksson og samherjar hans í litháíska liðinu Rytas frá Vilnius geta enn komist í átta liða úrslit Meistaradeildar FIBA í körfubolta eftir glæsilegan stórsigur á útivelli gegn Bahcesehir í Tyrklandi í kvöld, 92:69.

Rytas er með fjögur stig eftir fimm leiki í sínum riðli fyrir lokaumferðina og er í þriðja sætinu en Manresa frá Spáni er með sex stig í öðru sæti. Rytas fær Manresa í heimsókn í lokaumferðinni en þarf að vinna leikinn með fjórtán stiga mun til að komast upp fyrir Spánverjana og í átta liða úrslitin.

Elvar lék í tæpar 25 mínútur með Rytas í kvöld, skoraði átta stig og átti sex stoðsendingar, auk þess sem hann tók tvö fráköst.

mbl.is