Fimmtán sigrar í sextán leikjum hjá Þóru

Þóra Kristín Jónsdóttir í landsleik í vetur.
Þóra Kristín Jónsdóttir í landsleik í vetur. mbl.is/Óttar Geirsson

Þóra Kristín Jónsdóttir landsliðskona í körfubolta og samherjar hennar danska meistaraliðinu í AKS Falcon luku keppni í úrvalsdeildinni í kvöld með sannfærandi sigri á Sisu, 88:65.

Falcon hafði löngu tryggt sér deildarmeistaratitilinn en liðið vann fimmtán leiki af sextán í deildinni og fékk 30 stig, fjórtán stigum meira en næsta lið, og leikur gegn Aabyhöj í undanúrslitunum um danska meistaratitilinn.

Þóra Kristín skoraði 14 stig í kvöld, átti tvær stoðsendingar og tók  tvö  fráköst en hún spilaði í 22 mínútur.

mbl.is