Kamerúninn knái kláraði Cleveland

Joel Embiid í leiknum í nótt.
Joel Embiid í leiknum í nótt. AFP/Jason Miller

Joel Embiid fór á kostum þegar lið hans Philadelphia 76ers vann sterkan sigur á Cleveland Cavaliers, 118:109, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Hinn kamerúnski Embiid hefur verið óstöðvandi á tímabilinu og lauk leik í nótt með 36 stigum, 18 fráköstum og fjórum vörðum boltum.

Liðsfélagi hans James Harden lék einnig frábærlega og skoraði 28 stig, tók sex fráköst og gaf 12 stoðsendingar.

Ótrúlegur leikur Steph Curry dugði ekki til þegar ríkjandi meistarar Golden State Warriors töpuðu fyrir LA Clippers, 126:134.

Curry gerði sér lítið fyrir og skoraði 50 stig ásamt því að gefa sex stoðsendingar.

Stigahæstur í liði Clippers var Kawhi Leonard með 30 stig. Hann tók auk þess átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Öll úrslit næturinnar:

Cleveland – Philadelphia 109:118

LA Clippers – Golden State 134:126

San Antonio – Dallas 128:137 (frl.)

Minnesota – Boston 102:104

Houston – LA Lakers 114:110

Chicago – Sacramento 114:117

Miami – Memphis 138:119

mbl.is