Grindavík nánast búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni

Gkay Skordilis, leikmaður Grindavíkur og Julio De Assis, leikmaður Breiðabliks, …
Gkay Skordilis, leikmaður Grindavíkur og Julio De Assis, leikmaður Breiðabliks, í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindavík vann góðan útisigur á Breiðabliki, 112:103, í efstu deild karla í körfubolta í kvöld. Með sigrinum fór Grindavík langleiðina með að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í vor.

Grindavík hreinlega yfirspilaði Breiðablik í fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum var 32:15. Blikar löguðu stöðuna örlítið í öðrum leikhluta en staðan í hálfleik var 56:43.

Breiðablik hélt áfram að minnka forskot Grindvíkinga í seinni hálfleik og komst liðið meira að segja yfir í þegar tæpar sex mínútur voru eftir af leiknum. Þá hins vegar tók besti leikmaður vallarins, Ólafur Ólafsson, til sinna ráða og setti niður tvö mikilvæg þriggja stiga skot sem fóru langleiðina með að tryggja gestunum sigurinn.

Ólafur var stigahæstur Grindvíkinga en hann skoraði 30 stig ásamt því að taka 12 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. Gkay Skordilis kom næstur með 24 stig og Damier Pitts skoraði 23.

Hjá Breiðabliki var Julio De Assis stigahæstur með 23 stig en Everage Lee Richardson kom næstur með 21.

Grindavík er í sjötta sæti með 20 stig, fjórum stigum meira en Þór, Stjarnan og Breiðablik. Stjarnan og Breiðablik eiga tvo leiki eftir en Þór þrjá og geta Þorlákshafnarbúar því komist í 18 stig seinna í kvöld, vinni þeir Tindastól. Gerist það, er enn örlítill möguleiki að öll fjögur áðurnefndu liðin endi með 20 stig og þá þarf að reikna út innbyrðisárangur þeirra til að komast að því hvert þeirra situr eftir í níunda sætinu. Vinni Tindastóll hins vegar í kvöld er ljóst að Þór og Stjarnan munu ekki bæði ná Grindvíkingum, þar sem þau eiga eftir að mætast innbyrðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert