Fallnir ÍR-ingar unnu Keflvíkinga

Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 27 stig fyrir ÍR í kvöld.
Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 27 stig fyrir ÍR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍR vann góðan sigur á Keflavík, 92:85, þegar liðin áttust við í Breiðholti í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfuknattleik í kvöld.

Um miðjan leikinn var ljóst að ÍR væri fallið niður í næstefstu deild eftir að Höttur vann sterkan útisigur á Breiðabliki.

ÍR-ingar létu það ekki á sig fá og kláruðu leik kvöldsins með sæmd.

Heimamenn leiddu með tveimur stigum, 47:45, í hálfleik.

ÍR herti tökin í síðari hálfleik og náðu mest 15 stiga forystu, 79:64, í fjórða og síðasta leikhluta.

Keflavík sótti aðeins í sig veðrið en ÍR sigldi að lokum góðum sjö stiga sigri í höfn.

Þar með er ljóst að ÍR hafnar í 11. sæti deildarinnar og KR í því 12. og síðasta.

Keflavík heldur kyrru fyrir í þriðja sæti.

Hákon Örn Hjálmarsson fór fyrir ÍR er hann skoraði 27 stig og gaf átta stoðsendingar að auki.

Stigahæstur í liði Keflavíkur var Litháinn Dominykas Milka með 18 stig, auk þess sem hann tók 12 fráköst.

ÍR - Keflavík 92:85

Skógarsel, Subway deild karla, 23. mars 2023.

Gangur leiksins:: 7:4, 15:8, 17:14, 22:21, 30:25, 34:31, 40:37, 47:45, 53:48, 59:51, 64:60, 72:60, 76:64, 79:71, 82:74, 92:85.

ÍR: Hákon Örn Hjálmarsson 27/8 stoðsendingar, Taylor Maurice Johns 17/10 fráköst, Collin Anthony Pryor 13/7 fráköst, Sigvaldi Eggertsson 11, Ragnar Örn Bragason 10, Friðrik Leó Curtis 7, Martin Paasoja 7/6 fráköst.

Fráköst: 19 í vörn, 9 í sókn.

Keflavík: Dominykas Milka 18/12 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 17/5 stoðsendingar, Eric Ayala 15/4 fráköst, David Okeke 11/4 fráköst, Valur Orri Valsson 10, Magnús Pétursson 5, Igor Maric 5/4 fráköst, Jaka Brodnik 2, Ólafur Ingi Styrmisson 2.

Fráköst: 23 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson, Birgir Örn Hjörvarsson.

Áhorfendur: 137

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert