Shahid magnaður í sigri Þórs á Stjörnunni

Vincent Malik Shahid var stigahæstur Þórsara í leiknum.
Vincent Malik Shahid var stigahæstur Þórsara í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór Þorlákshöfn sótti góðan sigur í Garðabæinn, 98:84, á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfubolta, Subway-deildinni, í kvöld. 

Þórsarar byrjuðu mun betur og leiddu með átta stigum eftir fyrsta leikhluta, 22:18. Þeir bættu aðeins við stigum í öðrum leikhluta og leiddu að honum loknum með 15, 49:34. 

Stjörnumenn reyndu að koma sér aftur inn í leikinn í þriðja leikhluta en það gekk brösuglega þar sem Þórsarar héldu áfram að setja sín stig, að lokum þriðja leikhluta var munurinn enn 15 stig, 69:54.

Þórsliðið gerði svo alveg út um leikinn um miðjan fjórða leikhluta en liðið komst mest 18 stigum yfir, 95:77. Stjarnan klóraði aðeins í bakkann og tapaði að lokum með 14 stigum, 84:98.

Vincent Shahid átti enn einn stórleikinn fyrir Þórsara en hann setti 38 stig, tók tvö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Liðsfélagi hans Jordan Semple átti einnig góðan leik en hann setti 17 stig, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu. 

William Gutenius var stigahæstur í liði Stjörnunnar með 18 stig.

Þór er áfram í sjöunda sætinu með 20 stig en með meira en tveggja stiga sigri á Grindavík í lokaumferðinni, sem er í sjötta sæti með 22 stig, kemst Þórsliðið upp í sjötta sætið. 

Stjarnan er í erfiðri stöðu en liðið þarf að vinna næsta leik sin gegn KR í Vesturbænum og treysta á það að Höttur tapi gegn ÍR, sem er fallið, til þess að komast í úrslitakeppnina. 

mbl.is