Valur burstaði Njarðvík og er deildarmeistari

Valsmenn fagna sigri sínum í kvöld.
Valsmenn fagna sigri sínum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Valsmenn tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla þegar þeir sigruðu toppslag deildarinnar í Ljónagryfjunni í kvöld. 101:76 varð niðurstaða kvöldsins og voru Valsmenn allt frá fyrstu mínútu töluvert betur stakkbúnir í körfuknattleik þetta kvöldið. 

Ljóst var fyrir kvöldið að þessi leikur væri hreinn úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn og því ákveðin spenna í loftinu.  Hin margrómaða úrslitakeppni svo handan við hornið en til að toppa á spennuna var Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mættur til að sjá þessi topplið eigast við. 

Valsmenn settu tóninn nokkuð fljótlega þetta kvöldið með framúrskarandi varnarleik. Þeir klipptu á helstu æðar sóknarleiks Njarðvíkinga með því að gera bakvarðapari þeirra gríðarlega erfitt fyrir.  Við þetta staðnaði sóknarleikur heimamanna og á tímum virtust þeir einfaldlega vera hræddir í sínum aðgerðum. 

Njarðvíkingar náðu svo vopnum sínum í öðrum leikhluta og var leikurinn í járnum í hálfleik, 51:46 Val í vil.

Í seinni hálfleik héldu svo gestirnir úr Hlíðunum áfram að hnykla vöðvana í varnarleik sínum og lykilleikmenn Njarðvíkinga fengu á tímabili varla tíma til að draga andann þar sem að varnarmenn Valsmenn voru í hálsmálinu á þeim Njarðvíkingum.  

Oft á tíðum dönsuðu Valsmenn á línu regluverksins og jafnvel stigu þar yfir. En heilt yfir þá virtist þjálfarateymi Vals vera búið að kortleggja algerlega leik Njarðvíkinga og þar með var hálfur sigurinn komin í hús.

Leikmenn Valliðsins stigu svo varla feilspor á meðan hinumegin voru Njarðvíkingar pirraðir og létu ágang varnarmúrs Vals fara illa í sig. 

Kannski ef eitthvað má gagnrýna við þetta annars stórkostlega Valslið var leikmaður þeirra Frank Booker jr. sem hvað eftir annað virtist "lenda í" átökum við Njarðvíkinga.  Frank blessaður fékk reyndar reisupassann fyrir lok leiks en þó ekki fyrr en hann hafði náð að ginna einn af betri leikmönnum Njarðvíkur í kvöld í "leðjuslag" sem varð svo til þess að Lisandro Rasio fékk einnig að fara í snemmbúna sturtu

Fyrir leik höfðu Njarðvíkingar verið á 10 leikja sigurgöngu og Valsmenn vissulega að senda þeim grænklæddu ákveðin tón með þessum sigri í kvöld. 

Kristófer Acox átti frábæran leik og setti 25 stig. Ásamt því tók hann 14 fráköst og gaf tvær stoðsendingar. 

Valur er deildarmeistari og tryggði sér þar með efsta sætið í úrslitakeppninni. Valsmenn mætta annaðhvort Hetti, Breiðablik eða Stjörnunni í 1. umferð úrslitakeppninnar. Njarðvíkingar munu annaðhvort mæta Þór Þorlákshöfn eða nágrönnum sínum í Grindavík. 

Njarðvíkingurinn Mario Matasovic og Valsarinn Hjálmar Stefánsson í baráttunni.
Njarðvíkingurinn Mario Matasovic og Valsarinn Hjálmar Stefánsson í baráttunni. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson
Njarðvík 76:101 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is