Þóra leikur til úrslita eftir magnaða endurkomu

Þóra Kristín Jónsdóttir.
Þóra Kristín Jónsdóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

Þóra Kristín Jónsdóttir og liðsfélagar hennar í danska meistaraliðinu Falcon unnu Aabyhöj, 92:89, í framlengdum öðrum leik undanúrslita úrvalsdeildarinnar í körfubolta kvenna í Danmörku.

Falcon vann fyrsta leik liðanna á heimavelli, 65:54, og er því komið í úrslitaeinvígið en vinna þurfti tvo leiki til þess.

Allt útlit var fyrir að Aabyhöj væri að fara með sigur af hólmi og þar með að jafna einvígið en liðið leiddi með 14 stigum þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum. Þá hins vegar kom frábær kafli frá Falcon og Taylor Gleason jafnaði metin með þriggja stiga skoti þegar nokkrar sekúndur voru eftir.

Í framlengingunni var gríðarleg spenna en að lokum var það Falcon sem hafði betur, 92:89.

Þóra spilaði rúmlega 34 mínútur í leiknum, skoraði sjö stig, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Þá setti hún niður tvö vítaskot þegar um 30 sekúndur voru eftir af framlengingunni, með allt undir.

Í hinu undanúrslitaeinvíginu eigast við Amager og Herlev en þar fer fram oddaleikur 2. apríl. Þá kemur í ljós hvaða liði Falcon mætir í úrslitaeinvíginu.

mbl.is