Kári framlengir við Val

Kári Jónsson í leik með Val á tímabilinu.
Kári Jónsson í leik með Val á tímabilinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Val.

Kári gekk til liðs við Val frá spænska liðinu Girona fyrir síðasta tímabil og varð Íslandsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili.

Á yfirstandandi tímabili hefur hann leikið frábærlega og hjálpað Val að vinna þrefalt þar sem liðið varð meistari meistaranna í október, bikarmeistari í janúar og deildarmeistari síðastliðið föstudagskvöld.

„Kári kom frá spænska liðinu Basquet Girona fyrir síðasta tímabil og hefur síðan náð að heilla hugu og hjörtu Valsmanna með frábærum hæfileikum sínum og leiðtogahæfni,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Vals.

Enn getur fjórði titill Vals á tímabilinu bæst í safnið þar sem úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn hefst í næsta mánuði.

mbl.is