Magnaður leikur Doncic dugði ekki til

Luka Doncic í leiknum í nótt.
Luka Doncic í leiknum í nótt. AFP/Megan Briggs

Misjafnt gengi Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfuknattleik heldur áfram. Í nótt átti Slóveninn Luka Doncic stórkostlegan leik en gat ekki komið í veg fyrir 122:129-tap gegn Miami Heat.

Doncic var nálægt því að ná þrefaldri tvennu er hann skoraði 42 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Dallas.

Tim Hardaway Jr. lék sömuleiðis frábærlega og skoraði 31 stig ásamt því að taka sex fráköst og gefa sjö stoðsendingar. Kyrie Irving bætti við 23 stigum og gaf átta stoðsendingar.

Hjá Miami var Jimmy Butler stigahæstur með 35 stig og gaf hann auk þess 12 stoðsendingar. Cody Zeller bætti við 20 stigum og átta fráköstum.

Hlutskipti Kawhi Leonard hjá LA Clippers var keimlíkt því hjá Doncic þar sem hann átti magnaðan leik í 114:122-tapi liðsins fyrir New Orleans Pelicans.

Leonard skoraði 40 stig og tók átta fráköst. Russell Westbrook lék sömuleiðis vel og skoraði 24 stig ásamt því að gefa níu stoðsendingar.

Brandon Ingram var stigahæstur hjá New Orelans með 36 stig og átta stoðsendingar. Jonas Valanciunas bætti við 23 stigum og tók 12 fráköst.

mbl.is