Gamla ljósmyndin: Formaðurinn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Guðbjörg Norðfjörð tók fyrirvaralítið við formennsku hjá Körfuknattleikssambandi Íslands í lok mars en hafði gegnt embætti varaformanns um árabil. 

Guðbjörg er aðeins önnur konan sem verður formaður Körfuknattleikssambandsins en sú fyrsta var Þórdís Anna Kristjánsdóttir sem fór fyrir körfuknattleikshreyfingunni 1983-1984. 

Konur eru í auknum mæli að taka að sér forystuhlutverk í íþróttahreyfingunni sem sést til að mynda á því að nú eru konur í formennsku bæði hjá KKÍ sem og Knattspyrnusambandinu. Undanfarna  daga hafa auk þess borist af því fréttir að fyrstu konurnar hafi tekið við formennsku hjá fornfrægum félögum eins og KR og Fram. 

Guðbjörg var á sínum tíma ein besta körfuknattleikskona landsins. Hún lék með Haukum og KR og var fyrirliði KR sem varð þrívegis Íslandsmeistari á fjórum árum 1999-2002. 

Á myndinni fagnar Guðbjörg sætum sigri ásamt samherjum sínum í KR gegn Keflavík í Frostaskjólinu í febrúar árið 2000. 

Fremri röð frá vinstri: Sigrún Skarphéðinsdóttir, Hanna Björg Kjartansdóttir, Gréta María Grétarsdóttir, Kristín Björk Jónsdóttir

Aftari röð frá vinstri: Guðbjörg, Hildur Sigurðardóttir og Emelie Ramberg. 

Guðbjörg var valin besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1997 og var í liði 20. aldarinnar sem valið var af KKÍ árið 2001. 

Guðbjörg lék 53 A-landsleiki á árunum 1990 til 2002.

Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik lauk á dögunum með sigri Vals og í vikunni sigraði Tindastóll í karlaflokki. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert