Boston forðast kústinn

Nikola Jokic fór á kostum í úrslitum Vesturdeildarinnar gegn LA …
Nikola Jokic fór á kostum í úrslitum Vesturdeildarinnar gegn LA Lakers og var valinn bestur í einvíginu. AFP/Harry How

Hvað gerðist eiginlega í undanúrslitunum í NBA-deildinni undanfarna viku?

Eins og bent var á í þessum pistlum fyrir undanúrslitin, virðist sem við svokallaðir „NBA-sérfræðingar“ hér vestra vitum ekkert um styrkleika liða og útkomu einvíga í úrslitakeppninni – svo fjarri hafa úrslitin verið spádómunum, sem gáfu til kynna að bæði einvígin hefðu átt að vera hnífjöfn.

Miami Heat virtist vera að rúlla upp Boston Celtics í lokarimmu Austurdeildarinnar eftir að hafa unnið þrjá fyrstu leikina, þar til að Boston vaknaði loksins af værum blundi og vann sannfærandi sigur í fyrrinótt í Miami, 116:99. Með sigrinum forðaðist Boston kústinn svokallaða, en hér vestra er talað um að liði sé „sópað“ út úr keppninni ef það vinnur ekki leik.

Þrátt fyrir að Denver Nuggets hafi náð toppsætinu í Vesturdeildinni að lokinni deildarkeppninni, voru margir svokallaðir sérfræðingar á því að allt að því helmingslíkur væru á því að Los Angeles Lakers ynnu í einvíginu gegn Denver í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Í öllu falli spáðu nær allir því að leikserían yrði sex eða sjö leikir að lengd.

Rökréttast væri að álykta sem svo að toppliðið eftir deildakeppnina vestan megin ætti að teljast mun sigurstranglegra en lið sem rétt skreið inn í úrslitakeppnina. Denver rúllaði bæði Minnesota og Phoenix upp án teljandi erfiðleika í fyrstu tveimur umferðunum, en haldið var að Lakers myndu veita meiri mótspyrnu.

Svo varð ekki.

Enginn gat stöðvað Jokic

Denver „sópaði” Lakers út úr keppninni á mánudagskvöld með fjórum sigrum í röð, þrátt fyrir góða baráttu Lakers í öllum leikjunum. Þrír af þessum leikjum unnust á lokamínútunni, þannig að það var fjarri lagi að Lakers hefðu rúllað sér á bakið og beðið mótherjana að klóra sér á maganum!

Bæði Anthony Davis og LeBron James léku vel fyrir Lakers í keppni liðanna og James gaf allt sem hann átti í leikinn – skoraði 40 stig í síðasta leiknum þar sem hann lék allan leikinn. Það var einfaldlega ekki nógu gott gegn besta liði deildarinnar þetta árið.

Það kom einfaldlega í ljós í þessari rimmu að lið Denver var í heildina betra liðið. Meiri agi var hjá leikmannahópi sem hefur verið samstilltur lengi, hraðari leikmenn, og loks hittu þeir betur úr þriggja stiga skotum. Svo hafði Denver Nikola Jokic á sínum snærum.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »