Mun ekki draga menn lengi á svari

Pavel Ermolinskij hefur gert góða hluti á Sauðárkróki.
Pavel Ermolinskij hefur gert góða hluti á Sauðárkróki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nei, alls ekki. Þvert á móti. Ég pældi aldrei í því. Sá satt best að segja ekki fyrir mér að verja öðrum tuttugu árum í þjálfun.“ 

Þetta segir Pavel Ermolinskij, sem gerði Tindastól í fyrsta sinn að Íslandsmeistara í körfubolta á dögunum, spurður að því hvort hann hafi alltaf stefnt að því að verða þjálfari þegar keppnisferlinum lyki.

 Það setur ábyggilega hroll að stuðningsmönnum Tindastóls þegar þeir lesa þetta. Samningur þinn er laus, verður ekki gerður annar?

„Ég var að skrifa undir vikusamning hérna á Hosiló [veitingastaðnum], ætla að vera hérna næstu daga,“ segir Pavel hlæjandi og spennan eykst. „Mér stendur til boða að vera áfram á Króknum og er að hugsa málið. Mér fannst þetta alveg rosalega gaman og okkur var frábærlega tekið á Sauðárkróki. Ég er að eiga þetta samtal við mig núna.“

– Ætlarðu að hugsa málið í einhverjar vikur?

„Nei, ég get ekki dregið menn á svari. Mögulega verður það komið áður en blaðið kemur út en sennilega tekur þetta þó aðeins lengri tíma. Hæfileikar mínir liggja á sviði körfubolta; það er kannski ekki gáfulegt að vera stanlaust að berjast við það.“

Þekki svona bæjarfélag

Staðsetningin var engin fyrirstaða enda ólst Pavel upp í litlum bæ sem um margt er líkur Sauðárkóki – Borgarnesi.

„Þegar ég var að alast upp var Borgarnes Sauðárkrókur í þeim skilningi að allt snerist um körfubolta. Þannig að ég þekki svona bæjarfélag og skil hvaða þýðingu góður árangur í íþróttum hefur fyrir fólkið. Mér þykir mjög vænt um Borgarnes; uppvaxtarárin þar voru bestu ár lífs míns.“

Pavel fagnar með sínu fólki á dögunum.
Pavel fagnar með sínu fólki á dögunum. mbl.is/Óttar Geirsson


Pavel er af rússnesku foreldri og fæddist í Moskvu árið 1987. Faðir hans, Alexander Ermolinskij, var afbragðskörfuboltamaður og eftir að hafa leikið um tíma í Ungverjalandi skilaði fjölskyldan sér upp á Íslandsstrendur og settist að í Borgarnesi, þar sem Alexander gekk til liðs við Skallagrím. Pavel var fimm ára á þeim tíma.

„Tilgangurinn var fyrst og fremst að öðlast betra líf. Það var erfitt að draga fram lífið í Sovétríkjunum og þess vegna vildu foreldrar mínir freista gæfunnar erlendis. Ég á Borgarnesi mikið að þakka.“

– Körfuboltinn er mikill örlagavaldur í þínu lífi.

„Já, án hans hefði ég aldrei flutt til Íslands og byggi ábyggilega í Moskvu í dag.“

Nánar er rætt við Pavel í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: