Pavel áfram á Sauðárkróki

Pavel Ermolinskij gerði Tindastól að Íslandsmeistara.
Pavel Ermolinskij gerði Tindastól að Íslandsmeistara. mbl.is/Óttar Geirsson

Körfuknattleiksþjálfarinn Pavel Ermolinskij hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Tindastól. 

Pavel tók við Tindastólsliðinu um miðjan janúar og gerði liðið að Íslandsmeistara í maí með sigri á hans fyrrum félagi Val í oddaleik sem fór framhjá engum. 

Til viðbótar við að þjálfa meistaraflokk karlaliðsins mun hann einnig aðstoða við unglingastarf Tindastóls, bæði karla- og kvennamegin með ýmsum hætti. 

„Síðustu mánuðir hafa auðvitað verið mikið ævintýri. Ég stökk á þetta tækifæri vegna þess að ég vissi í fyrsta lagi um þessa sterku umgjörð Tindastóls í körfuboltanum og líka vegna þess að mig langaði að spreyta mig á því verkefni að vera þjálfari og leiðtogi utan vallar.

Þetta var ákveðin prufukeyrsla fyrir mig; ég vildi vita hvort verkefni og ábyrgð þjálfarans hentuðu mér og það kom mér svo sem ekkert á óvart hvað ég nýt mín í þessu hlutverki. Og það kom mér heldur ekki á óvart hve vel var tekið á móti mér og allri fjölskyldunni. Sauðárkrókur er stórkostlegur staður að vera á og við hlökkum til þess að fá að kynnast íbúunum og bæjarlífinu enn betur á næstu árum,“ sagði Pavel við undirskriftina. 

Frá undirskriftinni í dag í höfuðstöðvum Fisk Seafood. Dagur Þór …
Frá undirskriftinni í dag í höfuðstöðvum Fisk Seafood. Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar, og Pavel með starfsfólk FISK að baki sér. Ljósmynd/Tindastóll
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert