KR fær efnilegan leikmann úr Stjörnunni

Friðrik Anton Jónsson í leik með Stjörnunni í vetur.
Friðrik Anton Jónsson í leik með Stjörnunni í vetur. Kristinn Magnússon

KR-ingar halda áfram að setja saman lið fyrir keppnina í 1. deild karla í körfuknattleik næsta vetur og þeir hafa nú fengið efnilegan leikmann frá Stjörnunni í sínar raðir.

Friðrik Anton Jónsson er 21 árs gamall framherji, ríflega tveir metrar á hæð, og hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands undanfarin ár. Hann hefur samið við KR til tveggja ára.

Hann lék 26 leiki með Stjörnunni í úrvalsdeildinni og úrslitakeppninni í vetur og skoraði að meðaltali 4,9 stig í leik og tók 3,7 fráköst að meðaltali. Friðrik lék með Álftanesi í 1. deildinni tímabilið 2021-22 og hluta tímabilsins á undan.

mbl.is