Stjarnan hafði betur í úrslitaleiknum

Tómas Þórður Hilmarsson, leikmaður Stjörnunnar.
Tómas Þórður Hilmarsson, leikmaður Stjörnunnar. Kristinn Magnússon

Stjarnan hafði betur gegn Hetti í úrslitaleik Árborg sk 88 mótsins í körfuknattleik í gær. Stjarnan komst í úrslitin eftir sigur á KR á meðan Höttur mætti Íslandsmeisturum Tindastóls. Úrslitaleikurinn var æsispennandi og mjög jafn allan tímann.

Tómas Þórður Hilmarsson var hetja Stjörnunnar en hann tryggði liðinu sigur með tveimur vítaköstum þegar 0,4 sekúndur voru eftir af leiknum. Lokatölur 83:82.

Stigahæstur í liði Stjörnunnar var fyrirliðinn Ægir Þór Steinarsson með 18 stig en í liði Hattar var það Deontaye Buskey með 19 stig.

Tindastóll endaði í þriðja sæti á mótinu með sigri á KR, 82:76, og var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson stigahæstur í liði Tindastóls með 30 stig. Í liði KR voru þeir Troy Cracknell og Friðrik Anton Jónsson báðir með 16 stig.

mbl.is