Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur komist að samkomulagi við Auði Írisi Ólafsdóttur og Arnar Guðjónsson um að halda áfram þjálfun kvennaliðsins á komandi tímabili, þar sem liðið mun leika í úrvalsdeildinni.
Undir þeirra stjórn náði liðið frábærum árangri á síðasta tímabili er Stjarnan stóð uppi sem deildarmeistari í 1. deild, vann einnig úrslitakeppni deildarinnar og komst í undanúrslit bikarkeppninnar.
Auður Íris var kjörin þjálfari ársins í 1. deild á síðasta tímabili og hefur þjálfað liðið undanfarin tvö tímabil. Á því síðara, síðasta tímabili, bættist Arnar við þjálfarateymið en hann er einnig þjálfari karlaliðs Stjörnunnar.
„Stjórn körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar er þakklát fyrir þeirra frábæra starf og verður spennandi að sjá þau stjórna ungum og bráðefnilegum leikmönnum Stjörnunnar, í bland við reyndari leikmenn sem bæst hafa í hópinn fyrir komandi tímabil, í deild þeirra bestu,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar.