Frá Grikklandi í Garðabæinn

Arnar Guðjónsson og Auður Íris Ólafsdóttir þjálfa Stjörnuna í vetur …
Arnar Guðjónsson og Auður Íris Ólafsdóttir þjálfa Stjörnuna í vetur og hafa fengið talsverðan liðsauka. Ljósmynd/Stjarnan

Stjörnukonur, sem eru nýliðar í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í vetur, hafa bætt við sig reyndum leikmanni fyrir  tímabilið.

Denia Davis-Stewart frá Bandaríkjunum er komin til liðs við Stjörnuna en hún er framherji eða miðherji, 1,85 m á hæð, og var valin leikmaður ársins í NEC-deildinni með Merrimack í bandaríska háskólakörfuboltanum árið 2020.

Hún er 25 ára gömul og lék með Dafni Agioy í grísku A-deildinni seinni hluta síðasta tímabils en þar á undan í Ungverjalandi, Þýskalandi og Rúmeníu.

Stjarnan hefur styrkt lið sitt að undanförnu en Katarzyna Trzeciak, pólskur landsliðsbakvörður, kom til félagsins á dögunum og þá hefur Unnur Tara Jónsdóttir tekið fram skóna til að spila með Garðabæjarliðinu í vetur.

mbl.is