Haukar tryggðu sér í kvöld nafnbótina meistarar meistaranna í körfuknattleik í kvennaflokki með 78:77-sigri á Val á Hlíðarenda. Keira Robinson tryggði Haukum sigurinn með körfu þremur sekúndum fyrir leikslok.
Íslandsmeistararnir mæta bikarmeisturunum í Meistarakeppninni, en Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og Haukar bikarmeistarar.
Var leikurinn í kvöld spennandi allan tíman, en staðan í hálfleik var 40:38, Haukum í vil. Haukar voru svo með 58:53 forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Valskonur byrjuðu betur í honum og komust yfir, 59:58. Voru næstu mínútur jafnar og spennandi, en Hildur Björg Kjartansdóttir kom Val í 77:76 með tveimur vítum þegar sex sekúndur voru eftir.
Það nægði hins vegar ekki til sigurs, því áðurnefnd Keira Robinson náði að svara í blálokin og tryggja Haukum sætan sigur.