Alveg nákvæmlega sama hvað öðrum finnst

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í körfuknattleik kvenna, segist ekki viss um að nýtt fyrirkomulag úrvalsdeildarinnar fyrir komandi tímabil sé af hinu góða.

Tímabilið leggst mjög vel í okkur. Leikurinn í gær [gegn Haukum á miðvikudagskvöld] var fínn og gefur fín fyrirheit fyrir framhaldið. Við eigum töluvert í land bæði í sókn og vörn.

Sérstaklega sóknarlega, en það eru margar áherslubreytingar hjá okkur. Stelpurnar eru hins vegar fljótar að tileinka sér þær breytingar og það er mjög ánægjulegt,“ sagði Hjalti Þór í samtali við mbl.is á kynningarfundi KKÍ  í gær.

Ætlum að vinna alla bikara

Á fundinum var spá fyr­irliða, þjálf­ara og for­ráðamanna liða í úrvalsdeild­inni ásamt spá fjölmiðla fyrir komandi tímabil opinberuð. Í fyrrnefndri spá var Val spáð þriðja sæti og öðru sæti í þeirri síðarnefndu.

„Okkur er eiginlega alveg nákvæmlega sama hvað öðrum finnst um okkur. Við eigum okkar markmið og þau eru bara að ná í alla bikara.

Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná í allt sem við getum,“ sagði hann um spárnar.

Fyrir tímabilið var ákveðið að fjölga liðum í úrvalsdeildinni úr átta í tíu. Deildinni verður auk þess skipt í efri og neðri hluta, átta efstu liðin fara í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn, liðið í níunda sæti fer í umspil við liðin í 2. – 4. sæti í 1. deildinni um að halda sæti sínu og neðsta liðið fellur beint niður í 1. deild.

Set spurningarmerki við breytingarnar

„Auðvitað er alltaf gaman að hafa fleiri lið þannig að við séum ekki alltaf að spila á móti sömu liðunum. En ég set samt alveg spurningarmerki við þetta „format,“ að brjóta deildina upp í fimm og fimm.

Þá er náttúrlega alltaf eitt lið sem situr hjá í hverri umferð. Svo er átta liða úrslitakeppni, sem er frábært, en þá eru samt bara tvö lið sem eru ekki í úrslitakeppninni.

Þetta er svolítið stórt hlutfall af deildinni sem fer í úrslitakeppni. Þetta gerir það að verkum að deildin er kannski ekki eins mikilvæg,“ sagði Hjalti Þór um breytingarnar.

Hann telur kosti og galla við þær.

„Ég held akkúrat núna að deildin muni skipta minna máli af því að það er átta liða úrslitakeppni. Það eru í rauninni bara tvö lið sem þurfa að passa sig á því falla ekki eða fara í umspilið um að halda sæti sínu.

Þú þarft ekki að vinna rosalega marga leiki til þess að komast í átta liða úrslit,“ bætti Hjalti Þór við.

Bandaríkjakona á leiðinni

Spurður hvort von væri á frekari styrkingum til liðsins sagði hann svo vera.

„Já, það er Kani að koma í fyrramálið [í morgun]. Það verður vonandi tilkynnt á morgun [í dag] eða hvenær sem Valsarar vilja í raun tilkynna það.

Við skrifuðum undir samkomulag við hana í gær [á miðvikudag]“ sagði Hjalti Þór að lokum í samtali við mbl.is.

Þegar þetta er ritað hefur körfuknattleiksdeild Vals ekki tilkynnt formlega um komu nýs leikmanns frá Bandaríkjunum.

mbl.is
Loka