Erum með litla grjótharða töffara

Arnar Guðjónsson og Auður Íris Ólafsdóttir, þjálfarar Stjörnunnar.
Arnar Guðjónsson og Auður Íris Ólafsdóttir, þjálfarar Stjörnunnar. Ljósmynd/Stjarnan

„Við erum hrikalega spenntar að máta okkur við betri liðin eftir frábært ár í 1. deildinni í fyrra,“ Auður Íris Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á kynningarfundi KKÍ fyrir úrvalsdeildinna í gær.

„Við erum með litla töffara sem eru alveg grjótharðir inni á vellinum og búnar að bæta við reynslu í bland. Þetta verður bara spennandi fyrir okkur,“ bætti Auður Íris við.

Á kynningarfundinum voru spár fyr­irliða, þjálf­ara og for­ráðamanna liða í úrvalsdeild­inni og fjölmiðla fyrir komandi tímabil opinberaðar. Í þeirri fyrrnefndu var Stjörnunni spáð sjöunda sæti og sjötta sæti í þeirri síðarnefndu.

Kom ekki á óvart

Kom það ykkur á óvart að vera spáð þetta ofarlega sem nýliðum?

„Nei, í rauninni ekki. Það eru náttúrlega þrjú lið sem koma upp úr 1. deildinni. Það var hörkubarátta hjá þessum liðum í fyrra, þetta eru  flott lið.

Svo erum við búnar að spila æfingaleik við Breiðablik og búnar að sjá aðeins af Fjölni þannig að okkur þykir þetta bara frekar nákvæmt,“ sagði hún.

Mun búa til miklu meiri keppni

Fyrir tímabilið var ákveðið að fjölga liðum í úrvalsdeildinni úr átta í tíu. Deildinni verður auk þess skipt í efri og neðri hluta, átta efstu liðin fara í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn, liðið í níunda sæti fer í umspil við liðin í 2. – 4. sæti í 1. deildinni um að halda sæti sínu og neðsta liðið fellur beint niður í 1. deild.

Auður Íris kvaðst ánægð með fjölgunina.

„Ég tel að þetta verði töluvert betra. Það er mín skoðun að þetta muni búa til miklu meiri keppni í gegnum alla deildina.

Það eru fleiri lið sem spila í úrslitakeppni, færri leikir sem skipta þá engu máli og setur kannski aðeins meiri ábyrgð á liðin, til dæmis í að halda sínum útlendingum út tímabilið.“

Frábært að setja met í fjölda liða

Hún telur breytinguna geta komið í veg fyrir að deildin skiptist of mikið í tvennt hvað getu varðar.

„Já, hún getur gert það. Það er mjög spennandi að fara út í þetta og frábært að við séum að setja met í fjölda liða kvenna megin,“ sagði Auður Íris að lokum í samtali við mbl.is.

Alls eru 18 lið skráð til leiks í efstu tveimur deildunum, tíu í úrvalsdeild og átta í 1. deild, og hafa þau eins og hún bendir á aldrei verið fleiri í deildarkeppni kvenna í körfuknattleik.

mbl.is
Loka