Flottur í fyrsta leik í atvinnumennsku

Styrmir Snær Þrastarson átti flottan fyrsta leik í Belgíu.
Styrmir Snær Þrastarson átti flottan fyrsta leik í Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Styrmir Snær Þrastarson, landsliðsmaður í körfubolta, komst vel frá sínu er hann lék sinn fyrsta leik með belgíska liðinu Belfius Mons í efstu deild þar í landi í kvöld, þrátt fyrir að liðið tapaði fyrir Liege á útivelli, 69:83.

Styrmir, sem er frá Þorlákshöfn, skoraði átta stig fyrir sitt lið, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar á rétt tæpum hálftíma á gólfinu. Er honum ætlað stórt hlutverk í vetur.

Var leikurinn sá fyrsti hjá Styrmi sem atvinnumaður erlendis, en hann hefur leikið með Þór frá Þorlákshöfn allan félagsliðaferilinn. Hann var með Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum frá 2021 til 2022.

mbl.is
Loka