Fjölnir lagði nýliðana í Grafarvoginum

Korinne Campbell og Karen Lind Helgadóttir berjast um frákast í …
Korinne Campbell og Karen Lind Helgadóttir berjast um frákast í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnir vann góðan sigur á nýliðum Þórs frá Akureyri í annarri umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld, 70:62.

Heimakonur í Fjölni byrjuðu leikinn betur en skotnýting Þórsliðsins í upphafi leiks var ekki til útflutnings. Fjölnir nýtti sér það og komst m.a. í 14:3-forystu en þá kom góður kafli frá gestunum þar sem þær skoruðu tíu stig í röð og minnkuðu muninn í 14:13. Þá rankaði Fjölnisliðið þó við sér á nýjan leik og náði aðeins að auka forskotið á nýjan leik. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 21:15, heimakonum í vil.

Í öðrum leikhluta var jafnræði með liðunum. Fjölnir leiddi með 1-6 stigum allan tímann og virtist alltaf finna svar þegar Þór minnkaði muninn í eitt stig. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik leiddu heimakonur með tveimur stigum, 34:32.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega með Hrefnu Ottósdóttir í aðalhlutverki. Hún skoraði m.a. þrjár þriggja stiga körfur snemma í þriðja leikhluta og gestirnir komust sjö stigum yfir, 45:38. Þá kom góður kafli heimakvenna sem voru snöggar að minnka muninn aftur niður í þrjú stig. Að loknum þriðja leikhluta voru það gestirnir sem leiddu með einu stigi, 50:49.

Í fjórða leikhluta var líkt og lok hefði verið sett á körfu Fjölnis því gestunum var fyrirmunað að koma boltanum ofan í. Á meðan lék Raquel De Lima Viegas Laneiro á als oddi í liði Fjölnis og skoraði nánast að vild á tímabili. Að lokum fór það svo að Fjölniskonur unnu góðan átta stiga sigur á nýliðunum að norðan.

Líkt og í síðasta leik Fjölnis var Raquel Laneiro allt í öllu hjá Fjölni. Hún endaði sem langstigahæsti leikmaður vallarins með 35 stig ásamt því að gefa átta stoðsendingar. Þá setti hún niður alls sjö þriggja stiga skot. Hjá Þór var Hrefna Ottósdóttir stigahæst með 19 stig.

Bæði lið eru því með tvö stig eftir tvær umferðir en Þór vann sinn leik í fyrstu umferð á meðan Fjölnir tapaði.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Fjölnir 70:62 Þór Ak. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Loka