Glæsileg endurkoma Tindastóls í Eistlandi

Adomas Drungilas átti góðan leik.
Adomas Drungilas átti góðan leik. mbl.is/Hákon Pálsson

Íslandsmeistarar Tindastóls unnu sterkan 69:62-endurkomusigur á Pärnu Sadam frá Eistlandi í fyrsta leik sínum í C-riðli í undankeppni í Evrópubikars karla í körfubolta í Pärnu í dag.

Pärnu Sadam byrjaði mun betur og var með 19:13 forskot eftir fyrsta leikhlutann og 35:26 forystu í hálfleik.

Tindastóll neitaði að gefast upp og með flottum þriðja leikhluta tókst Stólunum að minnka muninn í 49:45 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þar reyndust Skagfirðingar mun sterkari og sigldu sætum sigri í hús.

Adomas Drungilas var stigahæstur hjá Tindastóli með 18 stig og Sigtryggur Arnar Björnsson gerði 14. David Geks kom þar á eftir með átta stig.

Tindastóll mætir Trepca frá Kósovó á morgun í seinni leik sínum í riðlinum. Með sigri þar tryggir Tindastóll sér sæti í riðlakeppninni.

mbl.is