Njarðvík varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Grindavík í úrvalsdeild kvenna í körfubolta á leiktíðinni.
Unnu Njarðvíkingar sterkan 60:56-heimasigur er liðin mættust í æsispennandi grannaslag í 4. umferðinni. Bæði lið eru nú með þrjá sigra og eitt tap.
Leikurinn var jafn og spennandi nánast allan tímann og var Grindavík með tveggja stiga forskot í hálfleik, 33:31.
Njarðvík var sterkari í þriðja leikhluta, vann hann 48:43, og var því með fimm stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 48:43.
Með góðri byrjun í fjórða leikhlutanum tókst Grindavík að jafna í 49:49. Njarðvíkingar voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og fögnuðu sigri.
Tynice Martin skoraði 17 stig fyrir Njarðvík og Jana Falsdóttir bætti við 15 stigum. Emilie Hesseldal, sem hefur farið á kostum með Njarðvík hingað til, hitti illa en tók 21 frákast.
Danielle Rodríguez skoraði 14 stig og tók 11 fráköst fyrir Grindavík og Hulda Björk Ólafsdóttir gerði 11 stig.