Ótrúlega naumur ósigur Íslands í Istanbúl

Jón Axel Guðmundsson sækir að körfu Tyrkja í leiknum í …
Jón Axel Guðmundsson sækir að körfu Tyrkja í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Ísland var hársbreidd frá því að vinna gríðarlega óvæntan sigur á Tyrkjum í undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik í Istanbúl í dag.

Jón Axel Guðmundsson kom Íslandi í 75:74 þegar 3,6 sekúndur voru eftir af leiknum. Tyrkir tóku leikhlé og stilltu upp fyrir Tarik Biberovic sem skoraði sigurkörfu þeirra úr erfiðri stöðu, 76:75.

Liðin eru því bæði með tvö stig eftir fyrstu tvo leiki sína í mótinu. Ítalir eru með tvö stig og Ungverjar ekkert en leikur þeirra hefst klukkan 17.

Eftir erfiða byrjun þar sem Tyrkir skoruðu fyrstu fjögur stigin komst íslenska liðið vel inn leikinn og breytti stöðunni úr 3:7 í 9:7. Fyrsti leikhluti var hnífjafn og staðan 16:16 að honum loknum. Tryggvi Snær Hlinason átti tvær magnaðar troðslur eftir að hafa varið skot strax í fyrstu sókn Tyrkja.

Tyrkir komust í 20:16 í öðrum leikhluta en Ísland svaraði með fimm stigum í röð og komst í 21:20 og 24:22. Þá gerðu Tyrkir átta stig í röð, 30:24. Í stöðunni 32:30 fékk Ísland dauðafæri til að jafna en í staðinn skoruðu Tyrkir þriggja stiga körfu og voru með fimm stiga forskot í hálfleik, 35:30.

Martin Hermannsson skoraði níu stig fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum og Tryggvi Snær var með átta stig, fjögur fráköst og tvö varin skot.

Eftir ágæta byrjun Íslands á síðari hálfleik náðu Tyrkir ellefu stiga forskoti, 50:39, um miðjan þriðja leikhluta. En með flottum varnarleik seinni hlutann saxaði íslenska liðið á muninn á ný og staðan var 54:47 að leikhlutanum loknum.

Ísland hóf fjórða leikhluta mjög vel og minnkaði muninn í 56:53 á fyrstu þremur mínútunum. Tyrkir virtust vera að gera út um leikinn þegar þeir komust í 66:56 og Ísland missti Martin Hermannsson af velli með fimm villur þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

En lokakaflinn var magnaður hjá Íslandi. Þristar hjá Ægi Þór Steinarssyni og Kristni Pálssyni minnkuðu muninn í 71:70 þegar rúm mínúta var eftir. Tyrkir komust í 74:70 en Elvar Már náði flottum þristi, 74:73.

Ísland náði boltanum þegar 20 sekúndur voru eftir og Jón Axel Guðmundsson skoraði af miklu harðfylgi, Ísland var yfir, 75:74 þegar 3,6 sekúndur voru eftir.

Tyrkir tóku leikhlé og stilltu upp fyrir Tarik Biberovic sem skoraði á glæsilegan hátt utarlega úr teignum í erfiðri stöðu, 76:75, og 16 þúsund áhorfendur fögnuðu afar naumum tyrkneskum sigri.

Stig Íslands: Martin Hermannsson 15, Elvar Már Friðriksson 14, Tryggvi Snær Hlinason 12, Ægir Þór Steinarsson 12, Kristinn Pálsson 11, Jón Axel Guðmundsson 8, Orri Gunnarsson 3.

Tryggvi tók 10 fráköst og varði 3 skot, Martin tók 6 fráköst og átti 4 stoðsendingar, Elvar átti 5  stoðsendingar og Kristinn tók 4 fráköst.

Sertac Sanli skoraði 20 stig fyrir Tyrki og tók 12 fráköst, Ercan Osmani skoraði 4 stig og Tarik Biberovic 11.

Tyrkland 76:75 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert