Fékk harða gagnrýni og sneri við blaðinu

Luka Doncic lét verkin tala í fjórða leiknum gegn Boston …
Luka Doncic lét verkin tala í fjórða leiknum gegn Boston Celtics. AFP/Stacy Revere

„Það var annað hvort fyrir okkur að mæta svona til leiks, eða að fara í sumarfrí,” sagði Luka Doncic, stórstjarna Dallas Mavericks eftir stórsigur liðsins á heimavelli gegn Boston Celtics, 122:84, í fjórða leik lokaúrslitanna í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Doncic var að sjálfsögðu að tala um stöðu Mavericks í þessari rimmu eftir töp í þremur fyrstu leikjunum, þar sem kappinn hafði verið harðlega gagnrýndur af fréttafólki og fyrrum leikmönnum í NBA fyrir hugarfar hans í þeim töpum.

Þessi gagnrýni gekk mest út á hegðun hans á leikvellinum, en Doncic er þekktur hér vestra fyrir að nöldra í dómurunum og gretta sig svo eins og frekt smábarn þegar honum líkar ekki ákveðna dóma.

Þessi gagnrýni NBA-skríbenta síðustu þrjá daga fyrir leikinn gekk mest út á hegðun sem talin er óviðeigand í NBA menningunni. Jú, vissulega nöldra margir leikmenn við dómara í leikjum, en það gengur ekki til langframa og er venjulega ekki liðið af þjálfurum. Bandaríkjamenn telja það veikleika þegar atvinnumenn geta ekki einbeitt sér að leiknum og gera í því að nöldra og kvarta í hvívetna.

Knattspyrnunöldur talið vandamál

Í þessu samhengi benda hérlendir á atvinnuknattspyrnumenn víðsvegar um heiminn og þeim kúltúr sem þar þrífst, þar sem leikmenn reyna í hvívetna að „selja” leikbrot með því að falla í grasið eins og þrautþjálfaðir leikarar – rétt til að stökkva upp og láta eins og ekkert sé ef þeir frá fríspark eða spjald fyrir andstæðinginn fyrir leikaraskapinn. 

Þetta fer algerlega í taugar flesta íþróttaunnenda hér í landi. Bandaríkjamenn einfaldlega skilja ekki þessa menningu í knattspyrnunni. 

Þegar Doncic fer svo að gera það í NBA-leikjum hér vestra, fer heill her af NBA-sérfræðingum í gang og lætur hann hafa það. Hann er kallaður skapillur og benda margir á að þannig hafi kappinn hagað sér síðan hann hóf atvinnumennsku í körfuboltanum sextán ára gamall. Hann er einnig vel þekktur fyrir þetta í landsleikjum fyrir Slóveníu.

Þegar Doncic er inntur eftir þessu á fréttamannafundum hefur hann oft sagt að hann hafi afsakað hegðunina við samherja sína, en í Dallas sjá fréttaritarar á staðnum það gerast næstum mánaðarlega án breytingar á hegðuninni til langframa.

Við þessa hegðun kappans má bæta að hérlendis þykir hann ekki leggja nóg í sig í þjálfun og sé ekki í nægilega góðu leikformi til að taka yfir leiki í lok þeirra.

Það var í þessu andrúmslofti sem fjórði leikur liðanna fór fram. Doncic hafði ekki sýnt neitt í þremur fyrstu leikjunum til að svara fyrir sig.

Celtics átti ekki svar við orku Mavericks

Eftir jafnar fyrstu mínútur leiksins fór Dallas smám saman í gang og áður en að leikmenn Boston höfðu jafnað sig, höfðu heimamenn náð tuttugu stiga forystu, og í hálfleik var staðan 61:35. Já, Boston skoraði 35 stig í fyrri hálfleiknum!

Maður hefði haldið að tilverandi meistarar Celtics myndu taka sig til í andlitinu í seinni hálfleiknum, en það gerðist aldrei og þegar staðan var 92:60 eftir þrjá fyrstu leikhlutana, hreinsuðu báðir þjálfara varamannabekkina og þetta endaði loks með 38 stiga sigri Dallas, 122:84.

Það sem gerðist í þessum leik var einfalt. Jason Kidd, þjálfari Dallas, hafði sýnilega loks náð til leikmanna sinna, sem mættu í þennan leik með allt annað hugarfar en í fyrstu þremur tapleikjunum.

Þeir léku af orku og keyrðu upp hraðann eins og Kidd lagði áherslu á að þeir þyrftu að gera. Þetta gerði það að verkum að leikmenn Boston áttu ekki eins auðvelt með að setja upp sterkan varnarleik sinn á sínum eigin vallarhelmingi. 

Þess að auki mætti Doncic í þennan leik með allt annað hugarfar og allt aðra hegðun á leikvellinum. Hann kom í leikinn eins og breyttur maður eftir heimsókn til sálfræðings.

„Orkan sem við mættum með í kvöld og tempóið sem við náðum að leika með var lykillinn fyrir okkur. Jason [Kidd] undirbjó okkur vel fyrir þennan leik og við urðum að sýna persónulegt stolt hver og einn. Það náðum við að gera og við sjáum hvað gerist á mánudag,” sagði hann í leikslok. 

Leikmenn Boston mættu ekki

Þessi breyting á hugarfari leikmanna Dallas hafði einnig áhrif á varnarleik liðsins, sem var allt annað að sjá í þessum leik. Meira að segja Doncic fór að spila vörn!

Það þarf tvo til að dansa tangó segja þeir hér vestra, og í þessu tilviki var það ekki aðeins góður leikur Dallas sem leiddi til stóra sigursins, leikmenn Boston mættu hreinlega ekki í þennan leik. Svo var eins og að leikmenn þeir væru búnir að gera upp við sig að hvað sem gerðist í þessum leik, gætu þeir alltaf unnið fimmta leikinn á mánudag á heimavelli – og þar með vinna titilinn. 

Celtics-liðið hefur gert þetta í úrslitakeppninni undanfarin 4-5 ár, þar sem liðið gefur frá sér sigur með því að mæta með röngu hugarfari í leik. Þetta er veikleiki sem hefði sjálfsagt verið alvarlegri fyrir liðið, en eftir að hafa náð 3:0 forystu í þessu einvígi má búast við því að það gerist ekki aftur.

Það verður því athyglisvert að sjá hvað gerist í fimmta leik liðanna á mánudag.

Ég býst fastlega við því að leikmenn Boston taki sig til í andlitinu og geri betur en þá hörmung sem sýnd var í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert