Körfuknattleikskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hún er einungis 27 ára gömul.
Þetta tilkynnti hún í samtali við DFS.is, Fréttavef Suðurlands, en hún lék síðast með Grindavík í úrvalsdeildinni.
Hún hefur einnig leikið með uppeldisfélagi sínu Hamri, Hamri/Þór og Fjölni hér á landi og var hún meðal annars valin besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2021-22.
„Ég var að byrja í nýrri vinnu í sumar og hefði viljað taka sumarið á fullu til þess að undirbúa fyrir tímabilið en það var ekki hægt,“ sagði Dagný Lísa í samtali við DFS.is.
„Ég sé ekki fram á að ná að sinna körfunni almennilega í vetur eins og ég myndi vilja og svo vil ég líka eiga smá frítíma,“ bætti Dagný Lísa við sem lék 6 A-landsleiki fyrir Ísland á ferlinum.