„Þetta er búið að vera skrítið sumar,“ sagði Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur í körfubolta, í Fyrsta sætinu.
Ólafur, sem er 33 ára gamall, fór alla leið í úrslit Íslandsmótsins með Grindvíkingum á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði fyrir Val í oddaleik á Hlíðarenda en tímabilið í fyrra var vægast sagt skrítið fyrir Grindvíkinga vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
Ólafur er einn þeirra sem þurfti að yfirgefa heimili sitt í Grindavík vegna jarðhræringanna og er búsettur í Njarðvík núna.
„Ég fór til útlanda með stórfjölskyldunni í sumar,“ sagði Ólafur.
„Það var í fyrsta skipti sem ég hugsaði ekkert um eldgos eða Grindavík. Það var gott að geta legið á sundlaugarbakkanum og þurfa ekki að pæla í neinu.
Við vorum þarna í tíu daga og ég hefði þurft að vera lengur held ég bara,“ sagði Ólafur meðal annars.