„Ég sá það á börnunum mínum að þeim leið ekki vel“

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Hallur Már

„Ég er ekki enn þá farinn að segja heim til Njarðvíkur,“ sagði Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur í körfuknattleik, í Fyrsta sætinu.

Ólafur, sem er 33 ára gamall, fór alla leið í úrslit Íslandsmótsins með Grindvíkingum á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði fyrir Val í oddaleik á Hlíðarenda en tímabilið í fyrra var vægast sagt skrítið fyrir Grindvíkinga vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. 

Flóttamaður í eigin landi

Ólafur er búsettur í Njarðvík núna eftir að hafa þurft að yfirgefa Grindavík vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

„Við vorum að tala um það í gær, ég og konan, að við höfum ekki heyrt í neinum sem hefur þurft að flytja frá Grindavík og finnur fyrir létti og ró,“ sagði Ólafur.

„Ég hef hitt fólk frá Vestmannaeyjum sem upplifði gosið þar og er enn þá að díla við það. Ég held að þetta sé eitthvað sem þú munt aldrei jafna þig á. Þú ert flóttamaður í eigin landi. Við tökum einn dag í einu en aðalmálið er að börnin eru komin með ákveðna festu.

Við konan finnum alltaf leið til þess að takast á við þetta en ég sá það á börnunum mínum að þeim leið ekki vel. Elsta stelpan okkar var farin að gráta yfir einhverjum hlutum sem höfðu aldrei truflað hana.

Það var augljóst að henni leið ekki vel og það er gott að þau eru komin í ákveðna rútínu og ramma sem þau þekktu, áður en við þurftum að yfirgefa Grindavík,“ sagði Ólafur meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert