Jamil Abiad þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta sagði í samtali við mbl.is að það væri aldrei gaman að tapa körfuboltaleik, sérstaklega í framlengingu en að á sama tíma væri tímabilið nýbyrjað og hann hefði ekki miklar áhyggjur af framhaldinu þegar við ræddum við hann strax eftir leik gegn Þór frá Þorlákshöfn í kvöld.
„Við erum varnarlið og við gerðum mistök þar. Við gleymdum að sinna nokkrum atriðum á mikilvægum tímapunktum í leiknum og það kostaði okkur sigurinn í kvöld,“ sagði Jamil spurður út í tapið í kvöld.
Valsmenn hafa nú tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni. Ertu ekkert áhyggjufurllur upp á framhaldið?
„Það er aldrei gaman að tapa en þetta tímabil er langt og þetta er bara nýbyrjað þannig að ég vil ekki segja að við séum komnir langt á eftir eða neitt slíkt. Við eigum ennþá mikið inni og erum með frábæran hóp sem á eftir að fínpússa sig saman. Við þurfum bara að finna okkur aftur og fara að gera það sem við erum bestir í sem er að spila varnarleik,“ sagði hann.
Næsti leikur ykkar er gegn Álftanesi. Hvað þurfa Valsmenn að laga fyrir þann leik?
„Við þurfum fyrst og fremst að laga varnarleikinn okkar. Þar erum við bestir og við þurfum að sýna það. Við erum ekki vanir því að hleypa liðum í yfir 90 stig gegn okkur og við þurfum að stoppa það fyrir næsta leik.“
Aftur að leiknum í kvöld. Þór jafnar leikinn í lok fjórða leikhluta með þriggja stiga skoti. Áttu þínir menn að gera betur í varnarleiknum í lokasókn Þórs?
„Við töluðum um það í leikhléinu að reyna koma í veg fyrir opin skot fyrir utan þriggja stiga línuna. Síðan förum við í framlenginguna og þar magnast þessi sömu varnarmistök sem lýsa svolítið niðurstöðu leiksins en við þurfum bara að skoða þetta og vinna í þessum hlutum fyrir næsta leik og bæta okkur,“ sagði Jamil að lokum í samtali við mbl.is.