Valur og Þór frá Þorlákshöfn áttust við í annarri umferð Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Þórs Þorlákshafnar, 95:88, eftir framlengdan háspennuleik.
Eftir leikinn eru Valsmenn án stiga eftir tvo tapleiki og Þór með fullt hús stiga eftir tvær umferðir eða 4 stig.
Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur og náðu undirtökunum í fyrsta leikhluta þar sem Morten Bulow og Marreon Jackson fóru fyrir sóknarleik gestanna.
Eftir fyrsta leikhluta voru gestirnir frá Þór. með 11 stiga forskot og staðan 25:14 fyrir Þór.
Valsmenn mættu mun ferskari í annan leikhlutann og minnkuðu muninn í 5 stig í stöðunni 28:23 fyrir Þór sem tóku leikhlé í kjölfarið.
Valsmenn voru ekki hættir því þeir komust yfir í stöðunni 30:29 þegar Badmus setti niður þrist. Þórsarar komust aftur yfir en Valsmenn neituðu að gefast upp og setti Frank Booker niður þriggja stiga körfu sem setti Valsmenn aftur í framsætið í stöðunni 35:33.
Í stöðunni 37:37 og 27,3 sekúndur eftir af fyrri hálfleik fékk Kristinn Pálsson dæmda tæknivillu og tók fjögur vítaskot sem öll fóru ofan í körfuna.
Staðan 41:37 fyrir Val sem reyndust vera hálfleikstölur í leiknum.
Atkvæðamestir í liði Vals voru þeir Hjálmar Stefánsson og Kristinn Pálsson með 10 stig hvor. Taiwo Hassan Badmus var með 7 fráköst.
Í liði Þórs Þorlákshafnar var Morten Bulow með 16 stig og Jordan Semple með 8 fráköst.
Valsmenn byrjuðu þriðja leikhluta vel og náðu mest 10 stiga forskoti í stöðunni 55:45. Þá tóku gestirnir úr Þór Þorlákshöfn heldur betur við sér. Þeir minnkuðu muninn í 59:58 fyrir Val og breytu svo stöðunni í 60:59 sér í vil.
Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 68:61 fyrir Þór Þorlákshöfn í gríðarlega kaflaskiptum leik.
Fjórði leikhluti var æsispennandi og mátti halda að um úrslitaleik væri að ræða. Valsmenn byrjuðu að saxa á forskot Þórsara og tókst það. Þegar tæplega 5 mínútur voru eftir af leikhlutanum var staðan orðin jöfn 71:71. Þórsarar tóku þá leikhlé.
Gestirnir í Þór Þorlákshöfn náðu forskotinu aftur í stöðunni 73:71 og 3 mínútur eftir af leiknum. Valsmenn jöfnuðu í 73:73 með tveimur vítaskotum frá Sherif Ali Kenny.
Valsmenn unnu síðan boltann aftur og setti Hjálmar Stefánsson niður glæsilegan þrist fyrir heimaliðið og staðan orðin 76:73 fyrir Val.
Þórsarar neituðu að gefast upp og jöfnuðu með þristi frá Marcus Brown í kjölfarið. Staðan 76:76.
Valsmenn náðu aftur forskoti í stöðunni 78:76. Þegar 26 sekúndur voru eftir reyndur gestirnir að jafna en það tókst ekki og unnu Valsmenn boltann. Þórsarar brutu strax á Taiwo Hassan Badmus sem fór á vítapunktinn þegar 9,8 sekúndur voru eftir. Hann skoraði úr öðru vítaskotinu og staðan 79:76 fyrir Valsmenn og sá möguleiki fyrir hendi fyrir Þórsara að jafna leikinn.
Þórsarar tóku leikhlé og lögðu á ráðin um að ná þriggja stiga skoti og jafna leikinn. Marreon Jackson leikmaður Þórs Þ. Fékk dæmda villu fyrir utan teig og fékk þrjú vítaskot. Hann skoraði úr fyrstu tveimur en klikkaði á því þriðja. Það þýddi að Valsmenn brunuðu upp í sókn og fengu dæmda villu. Badmus fór aftur á vítapunktinn og skoraði núna úr báðum vítaskotunum. Staðan 81:78.
Þórsarar stilltu upp í lokaskot fyrir utan þriggja stiga línuna þegar 2,8 sekúndur voru eftir af leiknum. Upp í skotið fór Justas Tamulis og jafnaði hann leikinn með flautuþristi. Staðan 81:81 og þurfti að framlengja.
Þórsarar settu niður tvær þriggja stiga körfur í röð í framlengingunni og komust 6 stigum yfir í stöðunni 87:81. Valsmönnum tókst að jafna í stöðunni 87:87 og fengu tækifæri til að komast yfir en Badmus klikkaði á seinna vítaskoti sínu þegar hann jafnaði leikinn.
Þórsarar brunuðu upp í sókn og komust yfir 89:87. Valsmenn settu niður eitt vítaskot áður en Þórsara settu tveggja stiga körfu þegar um 11 sekúndur voru eftir og staðan 91:88. Valsmenn reyndu þriggja stiga skot sem klikkaði og fengu í kjölfarið á sig óíþróttamannslega villu.
Það notfærðu gestirnir úr Þór Þ. sér og komust 5 stigum yfir í stöðunni 93:88 og áttu auk þess sókn eftir.
Fór því svo að gestirnir náðu að lokum að vinna leikinn 95:88.
Stigahæstir í liði Vals voru þeir Taiwo Badmus og Kristinn Pálsson með 20 stig hvor. Badmus var jafnframt með 16 fráköst.
Í liði Þórs var Marreon Jackson með 27 stig og Morten Bulow með 26 stig. Jordan Semple var með 14 fráköst.