Allir leikmenn í betra formi en ég

Pétur Ingvarsson
Pétur Ingvarsson Eggert Jóhannesson

Keflvíkingar bundu enda á þriggja leikja taphrinu sína í kvöld með 94:88 sigri á KR í úrvalsdeildinni í körfubolta. Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur var að vonum ánægður með sigurinn í kvöld þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik.

Hvað skóp sigurinn hjá þínu liði í kvöld?

„Góður þriðji leikhluti gerði gæfumuninn í kvöld. Skorum 27 stig gegn 10 hjá þeim og það er það sem skóp þetta."

Það var jafnt á með liðunum framan af og þetta hefði getað lent báðu megin allt þangað til Keflavík setur í næsta gír og nær frábærum kafla í þriðja leikhluta. Var það reynsla Keflavíkur eða andlegur styrkur liðsins sem sker að lokum úr um hvort liðið vann?

„Já og bara heimavöllurinn. Það munaði ekki miklu hérna í fjórða leikhluta að þeir kæmust almennilega inn í leikinn og maður þarf að passa sig í þessari deild því hún er full af góðum liðum. Þegar maður er búinn að tapa þremur leikjum í röð þá eru allir óánægðir. Þannig að núna vonandi erum við að snúa þessu við. Við eigum alvöru leik gegn ÍR á útivelli í næstu viku sem ég held að verði mun stærra próf um úr hverju við erum gerðir."

Þú sagðir í viðtali í síðustu viku að það væri ekki gott ef þjálfarinn væri í betra formi en leikmennirnir. Tóku leikmennirnir þetta til sín?

„Ég held að þetta hafi nú bara verið einhver samkvæmisleikur hjá mér. Það eru allir leikmenn liðsins í betra formi en ég. Ég er samt í betra formi heldur en flestir dómararnir," sagði Pétur brosandi.

Einhverjir sérfræðingar voru að pirra sig á svokölluðum Excel-skiptingum hjá þér eftir síðasta leik. Notar þú Excel til að hjálpa þér að ákveða skiptingar? Hvað hefur þú að segja um það?

„Ég hef svo sem lítið um þetta að segja. Ég nota algorithma við skiptingar og ef þeir vilja kalla það Excel-skiptingar þá er það allt í lagi. Ég skipti bara inn á til að reyna halda uppi hraða í leiknum og nota til þess smá svindlmiða um það hvernig ég skipti inn á til að ruglast ekki. Ef spekingarnir eru með betri aðferðir yfir það hvernig á að skipta inn á þá er það bara frábært.

Ég bara nota þessa aðferð og hef gert alltaf síðan ég byrjaði að spila svona hratt því ég þarf að skipta hratt inn á og ef ég fer að ruglast og skipti vitlausum mönnum inn þá fer allt í rugl. Það er bara pælingin í þessu og ef þeir vilja kalla þetta eitthvað þá er það bara allt í lagi."

Hvað þarf til að vinna ÍR í næsta leik?

„Við þurfum að hitta betur en í kvöld. Við erum að vinna í ákveðnum hlutum í okkar leik, laga það sem hægt er að laga og henda út því sem er ekki að virka í okkar leik. Við höfum núna aðra æfingaviku til að gera það. Við fengum lítinn tíma milli Njarðvíkurleiksins og núna í kvöld því það var bikarleikur þarna á milli.

En við erum bara að vinna í því. Ef hlutirnir smella saman þá erum við með frábæran mannskap en við þurfum kannski smá meiri liðsholningu á liðið þá fer þetta allt að smella hjá okkur," sagði Pétur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert