Langt í frá nógu gott

Dominikas Milka hjá Njarðvík með boltann í kvöld.
Dominikas Milka hjá Njarðvík með boltann í kvöld. Árni Sæberg

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfubolta var að vonum svekktur með 6 stiga tap gegn KR í Vesturbænum í kvöld. Spurður að því hvað hafi klikkað í kvöld sagði Rúnar þetta.

„Körfubolti er leikur svo margra smáatriða að ég get týnt til alveg endalaust en ef ég á setja þetta á eitthvað eitt þá myndi ég segja skotnýtingu. Þá sérstaklega þriggja stiga skotin. 6 af 35 sem gerir 17% skotnýtingu í þriggja stiga skotum á útivelli. Það er erfitt að vinna útileik með 17% skotnýtingu í þristum.

Þá komum við að sama skapi hinum megin. Þá vil ég að við séum lið sem getur unnið á útivelli á svona föstudagskvöldi þar sem ekkert fer ofan í körfuna. Þá þarf að vera hægt að treysta á varnarleikinn. Vörnin var góð á löngum köflum en það sem svíður mest eru stig eftir sóknarfráköst í seinni hálfleik og stig eftir tapaða bolta.

Við þurfum að vera klárir í okkar sóknarleik og síðan höfum við ekki efni á að vera með neinn lúxus í varnarleiknum. Það þarf fimm leikmenn tilbúna til að deyja fyrir félagann til þess að ná í stopp og það blæðir ekki jafn mikið þegar þú ert búinn að ná 20 stiga forskoti eins og í fyrri leikjum en þessi stopp skipta svo extra miklu máli í leikjum sem þessum.

En til að súmmera þetta upp þá var fórnfýsin ekki alveg nægilega mikil og þriggja stiga skorið sem klárar tapar þessu fyrir okkur.“

Í fjórða leikhluta þá skora Njarðvíkingar 5 stig á fyrstu sex og hálfri mínútunum. Er það nægilega gott?

„Alveg langt í frá. Það kemur líka kafli í fyrri hálfleik þar sem þeir ná áhlaupi. Þá var okkar svar við því að vera með léleg skot, fljót skot. Þetta var ekki liðssóknarleikur og við treystum bara á einstaklingshæfileika. Ég vil gera mitt lið þannig að við þurfum ekki að treysta eingöngu á ákveðna einstaklinga.

Við þurfum að svara betur sem lið þegar við erum að fá þessi áhlaup og drepa momentum-ið hjá þeim í stað þess að taka snögg, léleg skot og leyfa þeim að keyra í bakið á okkur aftur. Þetta þurfum við að laga.“

Næsti leikur er gegn ÍR í Innri Njarðvík. Verður svarað fyrir þennan leik þar?

„Þetta er sjö leikja prógramm fyrir landsleikjahlé og við getum náð í okkar fimmta sigur þar, vonandi með fulla Icemar höll að styðja við bakið á okkur og verið áfram á frábæru skriði þegar við förum inn í landsleikjahlé að þeim leik loknum,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka