Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik og fyrirliði Alba Berlín, gerði sér lítið fyrir í kvöld og var með tvöfalda tvennu í sigri liðsins á Ulm á heimavelli í þýsku A-deildinni, 96:88.
Martin lék í 29 mínútur í kvöld og skoraði bæði 11 stig og gaf 11 stoðsendingar en hann tók auk þess eitt frákast. Þá var hann með næstflest framlagsstig á vellinum, eða 20.
Þetta var þriðji sigur Alba í fyrstu sjö leikjunum en liðið er að rétta úr kútnum eftir slæma byrjun á tímabilinu.
Þrír aðrir landsliðsmenn voru á ferðinni með sínum liðum og Jón Axel Guðmundsson og samherjar hans í San Pablo Burgos héldu áfram sigurgöngu sinni í spænsku B-deildinni. Þeir unnu stórsigur á Gipuzkoa, 90:68, og tróna á toppi deildarinnar með sjö sigra í jafnmörgum leikjum.
Jón Axel lék í 15 mínútur en hann átti 4 stoðsendingar, skoraði 2 stig og tók eitt frákast.
Elvar Friðriksson var í sigurliði í Grikklandi þegar Maroussi vann Aris á útivelli, 74:72. Elvar lék í 23 mínútur og átti sex stoðsendingar, skoraði fjögur stig og tók þrjú fráköst. Þetta var annar sigur Maroussi í fyrstu sex umferðunum en liðið er í tíunda sæti af tólf liðum í Grikklandi.
Styrmir Snær Þrastarson mátti þola tap með Belfius Mons í belgísk/hollensku BNXT-deildinni, 79:68 gegn Mechelen á útivelli. Styrmir lék í 26 mínútur og tók sex fráköst, skoraði þrjú stig og átti þrjár stoðsendingar. Mons er í tíunda sæti af 19 liðum með fimm sigra og fimm töp.