Dramatískur sigur Íslands gegn Rúmeníu

Diljá Ögn Lárusdóttir með boltann í kvöld.
Diljá Ögn Lárusdóttir með boltann í kvöld. Ólafur Árdal

Ísland og Rúmenía áttust við í undankeppni Evrópumóts kvenna í körfubolta sem fram fer 2025 og lauk leiknum með sigri Íslands 77:73.

Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í riðlinum, bæði með tvö stig en Rúmenía er ofar þar sem rúmensku konurnar unnu fyrri leikinn með 12 stigum.

Leikurinn í dag var mjög jafn í fyrsta leikhluta, sérstaklega framan af og voru fyrstu fimm körfur íslenska liðsins úr þriggja stiga skotum.

Íslenska liðið náði mest sex stiga forskoti í fyrsta leikhluta í stöðunni 20:14 en þá komu níu stig í röð frá rúmenska liðinu sem leiddi með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta. Staðan var 25:22 fyrir Rúmeníu.

Íslenska liðið var mun öflugra í öðrum leikhluta og náði fljótlega góðu forskoti. Ísabella Sigurðardóttir setti niður fyrstu tvö stig íslenska liðsins áður en Danielle Rodriguez setti niður tvist og víti að auki sem kom íslenska liðinu yfir í stöðunni 27:25. 

Eftir þetta jók íslenska liðið muninn með frábærum sóknarleik. Varnarleikur liðsins var með ágætum en íslenska liðið gat ekki með nokkru móti náð varnarfráköstum og endaði hálfleikurinn þannig að rúmenska liðið var með 15 sóknarfráköst í fyrri hálfleik en íslenska liðið 17 varnarfráköst.

Þess ber að geta að rúmenska liðið skoraði ekki fyrstu stigin sín í öðrum leikhluta fyrr en eftir rúmlega fimm mínútna leik.

Ísland náði mest 13 stiga forskoti í öðrum leikhluta í stöðunni 44:31 en þá fór liðið að gefa eftir sem rúmenska liðið notfærði sér og minnkaði muninn niður í sjö stig áður en fyrri hálfleikur kláraðist.

Staðan var 44:37 fyrir Ísland í hálfleik.

Stigahæst í liði Íslands í fyrri hálfleik var Thelma Dís Ágústsdóttir með 15 stig. Danielle Rodriguez var með sex fráköst og sex stoðsendingar.

Í liði Rúmeníu var Alina Podar með átta stig og Nicoleta Mtitelu með sex fráköst.

Rúmenska liðið hélt áfram að saxa á forskot íslenska liðsins í þriðja leikhluta. Íslenska liðið náði þó mest átta stiga forskoti í leikhlutanum en þann mun náði Rúmenía að minnka niður í minnst eitt stig áður en íslenska liðið fór aftur í gang og jók muninn.

Staðan eftir þriðja leikhluta var 55:51 fyrir Íslandi.

Fjórði leikhluti var æsispennandi. Rúmenska liðið hélt áfram að saxa á forskot Íslands og að lokum tókst þeim að jafna í stöðunni 67:67 og 4:46 var eftir af leiknum. Þá var rúmenska þjálfaranum vísað úr húsi eftir að hafa fengið síðan aðra tæknivillu.

Ísland komst yfir í stöðunni 68:67 og í framhaldinu setti Thelma Dís niður þrist og kom Íslandi fjórum stigum yfir, 71:67. Þetta var gríðarlega mikilvæg þriggja stiga karfa.

Íslenska liðið fékk tækifæri til að auka muninn í sex stig en þær íslensku klikkuðu á tveimur vítaskotum. Í staðinn brunaði rúmenska liðið upp í sókn og minnkaði muninn niður í tvö stig og 2:39 eftir af leiknum.

Þegar 26,3 sekúndur voru eftir af leiknum jafnaði Alexandra Ghita fyrir Rúmeníu og staðan var 73:73. Íslenska liðið tók leikhlé og freistaði þess að ná fram sigri.

Það tókst þegar Daniella Rodriguez skoraði gullfallega þriggja stiga körfu og fékk að auki vítaskot þegar 6,7 sekúndur voru eftir. Staðan var 76:73 fyrir Ísland. Daniella skoraði að auki úr vítaskotinu og munurinn var orðinn fjögur stig og nánast öruggur sigur í höfn hjá íslenska liðinu. 

Svo fór að íslenska liðið vann fjögurra stiga sigur á því rúmenska.

Danielle Rodriguez var með 25 stig fyrir Ísland og níu stoðsendingar. Ísabella Sigurðardóttir var með 13 fráköst.

Alexandra Ghita var með 18 stig fyrir Rúmeníu og tíu fráköst. Carla Popescu var með þrjár stoðsendingar.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 77:73 Rúmenía opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka