Árni Þór Hilmarsson hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Selfoss í körfuknattleik af heilsufarsástæðum. Selfoss leikur í 1. deild.
Árni Þór tilkynnti í opinni færslu á Facebook-síðu sinni að hann sé að glíma við nýrnasjúkdóm, blöðrunýru, sem hafi valdið umtalsverðri nýrnabilun.
„Ég er byrjaður á nýjum lyfjum sem eiga að hægja á nýrnabilununni og finn ég strax mun á heilsunni. Eftir því sem nýrnalæknirinn minn segir eru nýrun hins vegar það mikið biluð að þau munu ekki duga mér það lengi að nýrnaskipti eru það eina í stöðunni innan einhverra ára.
Eftir að hafa farið aftur af stað á yfirsnúning í vinnu að nýju finn ég að líkaminn ræður ekki við það álag og streitu sem fylgir körfuboltaþjálfun og hef því ákveðið að stíga út úr því starfi.
Það er langt frá því auðveld ákvörðun og er hún tekin með miklum trega, en ég verð að setja heilsuna í fyrsta sæti. Sem betur fer er gott fólk við stjórnartaumana á Selfossi og ég veit að maður mun koma í manns stað,“ skrifaði Árni Þór meðal annars á Facebook-síðu sinni.
„Fram að áramótum mun ég áfram starfa áfram við körfuboltaakademíuna og einnig sem yfirþjálfari og umsjónarmaður yngri flokka á Selfossi,“ bætti hann við.