Grindavík vann grannaslaginn í Keflavík

Grindavík gerði góða ferð til Keflavíkur.
Grindavík gerði góða ferð til Keflavíkur. Ólafur Árdal

Grindavík hafði betur gegn grönnum sínum í Keflavík, 104:96, á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Með sigrinum fór Grindavík upp í tíu stig og er liðið jafnt Njarðvík í þriðja sæti. Keflavík er áfram með átta stig, eins og Álftanes, KR og Þór frá Þorlákshöfn.

Grindavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og eftir sigra í fyrstu tveimur leikhlutunum voru Grindvíkingar með 13 stiga forskot í hálfleik, 60:47.

Keflavík svaraði í þriðja leikhluta og vann hann 32:18. Var Keflavík því með eins stigs forskot fyrir lokaleikhlutann, 79:78. Þar reyndust Grindvíkingar hins vegar sterkari og unnu átta stiga sigur.

Daniel Mortensen skoraði 32 stig og tók 14 fráköst fyrir Grindavík. Devon Tomas gerði 19 stig. Ty-Shon Alexander gerði 26 stig fyrir Keflavík og Jarell Reischel skoraði 18.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert