Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur var svekktur með fjögurra stiga tap gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.
Spurður út í leikinn sagði Pétur þetta:
„Við erum að spila á móti besta liðinu í deildinni á hörku heimavelli og í hörku standi á meðan við erum kannski alveg komnir þangað ennþá. Þeir tóku 16 sóknarfráköst og við þurfum að ná því niður í eins stafs tölu ef við ætlum að vinna þetta lið.
Við klikkuðum líka á of mörgum opnum færum sem þarf að laga á sama tíma og við þurfum að vera stærri og sterkari í svona stórum leikjum.“
Má segja að munurinn á liðunum í kvöld hafi verið Shaquille Rombley sem skorar 29 stig fyrir Stjörnuna og tekur 12 fráköst?
„Sóknarfráköstin. Hann er klárlega gaur sem er góður í því. Hann hitti líka þrist og átti mjög góðan leik. En við vorum líka hugsanlega að leyfa honum að spila svona vel eins og hann gerði.“
Hlynur Bæringsson sagði í viðtali áðan að það hentaði hugsanlega Shaquille að spila gegn liði eins og Keflavík. Áttar þú þig á hvað hann á við með því?
„Nei þú verður að spyrja Hlyn að því. Ég veit ekkert hvað hann er að meina. Ég þekki ekki Shaq neitt, ekki nema Shaquille O'Neill. Hann er samt klárlega mjög góður leikmaður og spilaði vel í kvöld.“
Svona heilt yfir hvað hefðir þú viljað sjá fara betur hjá Keflavík í kvöld?
„Eins og ég sagði þá tóku þeir 16 sóknarfráköst og við klikkuðum á mörgum layup. Ef við hefðum náð að helminga þessi sóknarfráköst og kannski hitt betur úr layup-um þá hefði niðurstaðan kannski orðið önnur.
Það er samt ennþá bara desember og við skulum vona að við verðum betri þegar meira er undir. Við erum samt bara í miðri deild og þurfum á öllum sigrum að halda. Þessi sigur hefði komið sér vel.“
Næsti leikur er gegn Þór Þorlákshöfn. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?
Já, Þór Þorlákshöfn sem við höfum ekki unnið í fjölda ára þannig að þetta lítur ekki vel út.“
En þið ætlið ykkur væntanlega að vinna þá?
„Já og þeir ætla sér væntanlega að vinna okkur líka þannig að við þurfum að undirbúa okkur mjög vel fyrir þann leik,“ sagði Pétur í samtali við mbl.is.