Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar var að vonum kátur með fjögurra stiga sigur á Keflavík í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn var gríðarlega spennandi á köflum en á endanum hafði hans lið betur.
Spurður út í það hvað hafi að lokum ráðið úrslitum í kvöld sagði Hlynur þetta:
„Eftir erfiða byrjun í fyrsta leikhluta þá tókum við vörnina fastari tökum og breyttum aðeins upplegginu í öðrum og þriðja leikhluta. Við áttum samt í basli með þá allan leikinn.
Það sem sker úr um þennan leik finnst mér vera bara smá munur á hittni í restina. Við settum stig sem þeir settu ekki og þegar við náðum þessu í 10 stig þá var erfitt fyrir þá að koma til baka.“
Má segja að Stjarnan hafi verið með tromp í sínu liði sem heitir Shaquille Rombley. Hann skorar 29 stig og tekur 12 fráköst?
„Hann hefur verið ofboðslega góður í okkar liði en aldrei skorað svona mikið. Hann er rosalegur íþróttamaður og hefur opnað fyrir leikmenn eins og mig og Hilmar. Það sést ekkert alltaf. Hann getur alveg gert miklu meira af þessu.
Það hentar honum held ég vel að spila gegn liði eins og Keflavík. Við búumst auðvitað ekki við svona leik hjá honum í hverjum leik en þetta er ofboðslegur íþróttamaður og ég hef sjaldan séð annað eins.“
Það er tímapunktur í leiknum þar sem Shaquille treður af alefli og svo kemur Orri Gunnarsson og gerir slíkt hið sama í kjölfarið. Eftir þetta taka Keflvíkingar leikhlé. Má segja að þetta hafi verið vendipunktur í leik Stjörnunnar?
„Já mögulega því þá komu áhorfendur með okkur og stemmningin jókst. Svona körfur gefa okkur gríðarlega innspýtingu. Það er miklu meiri sýning þegar Shaq treður með hausinn í körfuna og Orri með sína troðslu. Já þetta gefur okkur helling og miklu skemmtilegra en þegar ég skora venjulega körfu.“
Stjarnan er áfram á toppnum eftir þennan sigur. Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér?
„Við verðum að halda áfram að bæta okkur. Eins og við erum í dag að spila núna verður ekki nóg þegar kemur að úrslitakeppninni. Við þurfum að bæta okkur því hin liðin munu bæta sig og ef við gerum það ekki þá verður það ekki nóg til að komast langt í úrslitakeppninni,“ sagði Hlynur í samtali við mbl.is.